„Ég hef átt í ágætis samskiptum við einstaka starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur en framkoma annarra, og þá alveg sérstaklega einnar konu, gagnvart mér og minni fjölskyldu hefur mér ekki fundist vera til eftirbreytni. Né tel ég þá framgöngu og hegðun vera hluta af hennar starfi,“ segir Anna Friðrikka Guðjónsdóttir, eða Rikka, förðunarfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri HIV Íslands.
Helvíti á jörð
Rikka hefur í fjögur ár barist fyrir að fá umgengni við barnabarn sitt sem Barnaverndarnefnd Reykjavíkur setti fyrst í fóstur fyrir sex árum, en þá var stúlkan tíu ára gömul.
„Ásta, dóttir mín, bað sjálf um aðstoð á sínum tíma þar sem hún var ekki á góðum stað, nýkomin úr slæmu sambandi, sem var helvíti á jörð, og var á leið í meðferð til Svíþjóðar. Ég fór með henni á einn eða tvo fundi og þar var börnunum ráðstafað. Hún vildi bara hjálp, hún var svo brotinn, elsku unginn minn.
Ákveðið var að yngri börnin, tveir drengir, yrðu hjá föður sínum og að stúlkan færi til föðursystur sinnar því faðir hennar var ekki til staðar. Það var í fyrsta skipti sem stúlkan fór í fóstur.
Allir sem að málinu komu voru sammála niðurstöðunni og síðar fór stúlkan til Guðrúnar, systur Rikku, en Guðrún er menntaður leikskólakennari og sérkennari. „Þarna vorum við fjölskyldan heil. Við fengum að hitta hana og taka þátt í lífi hennar,“ segir Rikka.
Olli miklum usla
„En svo tók þessi umrædda kona málið yfir, gerði þennan gríðarlega usla, og setti barnið á endanum í fóstur til ókunnugs fólks. Ég á ekki einu sinni orð til þess að lýsa hvað þessi kona hefur gert mér. Það er svo mannskemmandi og hún er búin að særa mig og mína fjölskyldu meira en unnt er að særa segja í orðum. Tilfinningin er ólýsanleg.“
Rikka þagnar og það renna tár niður vanga hennar.
„Ég sem held alltaf að ég sé hætt að skæla yfir þessu,“ segir hún og þurrkar tárin. „Sambandið við ömmubarn er undravert, ástin er einstök, og svo er hún bara tekin frá manni.“
Rikka hefur ekki fengið að tala við barnabarn sitt frá árinu 2018.
„Hún var 10 ára þegar hún fór til Guðrúnar systur. Þau hjónin búa á Selfossi, eiga þrjú börn og fannst sjálfsagt að taka litlu frænku sína að sér. Auðvitað fylgdi telpunni ýmislegt, hún þurfti mikla athygli og utanumhald, og heimilið var þungt fyrir, þar sem systur mín á langveik börn með fötlun. En þetta gekk allt vel, þau gerðu allt sem þau gátu fyrir hana, hún er partur af fjölskyldunni og ég gat hitt hana þegar ég heimsótti systur mína.“
Gekk vel í byrjun
Sjálf gat Rikka ekki tekið við ömmustelpunni þar sem yngsta dóttir hennar átti við fjölþættan vanda að stríða frá æsku sem hefur verið mikil þrautaganga. Taldi hún telpuna ekki eiga erindi inn í það umhverfi.
Eins og fyrr segir gekk allt vel í byrjun.
„Reyndar sagði starfsmaður barnaverndar mér að ég þyrfti að sækja um að hitta dóttturdóttur mína en ég svaraði að það kæmi ekki til greina að ég, eða nokkur annar í fjölskyldunni, færi að sækja um það til stofnunar að fara í barnaafmæli eða jólaboð hjá systur minni. Eða bara kíkja í kaffi, út af því einu að hún væri að fóstra barnabarnið mitt. Og það er nú ekki eins og ég væri alltaf þarna enda bý ég í öðru sveitarfélagi.“
Rikka segir þann starfsmann hafa skilið það vel. Þessi kona kom alltaf vel fram við mig, ég gat rætt við hana af rökvísi ef mér fannst það viðeigandi og hún tók því vel. Hún gaf mér líka leyfi til að stúlkan færi með mér og yngri systur yngstu dóttur minnar, Ljósbrá minni, til Svíþjóðar til að hitta mömmu hennar. Þar áttum við góðar stundir í nokkra daga og brölluðum ýmislegt skemmtilegt.“
Allt svikið
Stúlkan var hjá systur Rikku í 18 mánuði. „Auðvitað var þetta ekki alltaf auðvelt hjá systur minni og hún þurfti stuðning, enda stór fjölskylda með fötluð börn. Fósturaðilinn, sem svo tók við barninu, vann í sama skóla og systir mín og var reyndar kennari stúlkunnar.“
Rikka segir þá umræðu hafa sprottið upp að kannski yrði betra að stúlkan færi í fóstur til fjölskyldu kennarans en Guðrún og eiginmaður hennar yrðu stuðningsaðilar.
„En þá var þetta plan um varanlega fóstrið greinilega byrjað og allt var svikið.“
Rikka og fjölskyldan höfðu átt ágætis samskipti við þann starfsmann Barnaverndarnefndar Reykjavíkur er sá um málefni telpunnar. „Ég fékk að hitta hana reglulega, fara með hana til Svíþjóðar til mömmu sinnar og samskiptin voru góð okkar í milli. En svo svo tók sá starfsmaður sem ég minntist á í byrjun við málinu.
Og ef ég man þetta rétt var mamma hennar svipt forræði um leið, fljótlega eftir að þessi kona tók við. Það var aldrei talað um forræðissviptingu Ástu við okkur í fjölskyldunni, ég sá það fyrst á pósti til Ástu og mín þar sem við vorum beðnar um að láta telpuna í friði svo hún gæti aðlagast nýju fjölskyldunni sinni.“
Skilaboðum ekki svarað
Rikka þagnar og það er augljóst að það er henni erfitt að ræða aðskilnaðinn frá barnabarni sínu, þá baráttu sem hún hefur staðið í og þann toll sem sem sú barátta hefur tekið af henni.
„Guðrún systir sagði við mig nú bara i vikunni að hefði hún vitað að barnið yrði sett í varanlegt fóstur hefðu þau hjón aldrei samþykkt að láta hana af hendi. Þau hefði tekið hana í varanlegt fóstur sjálf. Við hefðum aldrei látið hana frá okkur vitandi af þessum forsendum.“
Í dag forðast þessar fyrrum samverkakonur hvor aðra, fósturaðilinn virðist forðast Guðrúnu og er skilaboðum Guðrúnar ekki svarað.
Smám saman fóru þær systur að átta sig á stöðunni. „Þau keyptu námskeið eins og foreldrar og forráðarmenn gera, leiklistarnámskeið í Reykjavík, þegar hún var á á tólfta ári. Systir mín fylgdi henni í strætó á Selfossi og maðurinn hennar tók á móti henni, því hann vinnur í Reykjavík og svo óku þau saman heim eftir námskeiðið.
Þessi starfsmaður sagði við Guðrúnu að það væri vanhæfi að hennar hálfu að senda hana á þetta námskeið, sagði það stórhættulegt og notaði alls kyns stóryrði. Eins og um stórglæp væri að ræða og það þyrfti að fjarlægja hana af heimilinu. Út af leiklistarnámskeið sem henni var fylgt í.
Skellt í lás
Rikka segir barnaverndarstarfsmanninn hreinlega hafa öskað á Guðrúnu sem vinsamlegast bað hana að róa sig en aftók með öllu að barnið yrði fjarlægt samdægurs, hún þyrfti nokkra daga til undirbúnings.
„Sem lærður leikskólakennari og sérkennari þekkir systir mín börn betur en flestir. Hún sagði að það væri ekki óeðlilegt að telpan færi á hitt heimilið en hún og hennar fjölskylda yrðu að vera henni til stuðnings. Sjálf fékk Guðrún engan stuðning þegar hún tók við stúlkunni.
Systir mín og mágur eru afar rólegt fólk, það drýpur ekki af þeim, og þau fóru bara fram á að um góð samskipti á milli heimilanna yrði að ræða. Guðrún var að hugsa um hag allra barnanna, frændsystkinanna.“
Rikka segir að aftur á móti hafi verið skellt í lás eftir að stúlkan fór og lokað á öll samskipti við blóðfjölskylduna. „Þegar við sóttum um að fá að hitta hana, einu sem oftar þarna í byrjun, sagði þessi umræddi starfsmaður að stúlkan þyrfti að fá ró og frið til að aðlagast nýju fjölskyldunni sinni.
Ég var orðlaus. Stúlkan á fjölskyldu, góða og trausta blóðfjölskyldu sem hafði fylgt henni frá fæðingu. Ég ber ekkert nema ást og velferð barnabarnanna minna fyrir brjósti og var viðstödd fæðingar allra þeirra nema eins.
Út í hött
Ég ákvað að hringja aldrei aftur í þessa konu eftir allt sem hún lét yfir mig ganga. Hún spurði mig til dæmis hvort ég spyrði ekki foreldra leyfis áður en ég hringdi í börn. Ég sagðist nú ekki eiga annað eftir en að hringja í foreldrana til að fá leyfi til að tala við og vitja um barnabörnin mín. Það leyfi var mér gefið við fæðingu þeirra. Ég sagði konunni að henni væri velkomið að tala við foreldra allra minna barnabarna. Það væri út í hött að biðja um leyfi að tala við þau.
En ef ég ætlaði að fara eitthvað með þau? Þá myndi ég að sjálfsögðu tala við foreldrana.“
Rikka segir að þarna hafi hún verulega farið að átta sig á að eitthvað furðulegt var að gerast. „Ég var bara ekki að ná þessu og áður en ég veit af er búið að loka á svo að segja öll samskipti min við dótturdóttur mína.“
Rikku finnst margt óeðlilegt við ferlið. Telur hún að það hafi verið skipulagt að taka barnið?
Rikka hikar.
„Ég get ekki sagt til um það en þetta var unnið mjög hratt, óeðlilega hratt. Ég held að það sé um tíu vikna námskeið sem fósturforeldrar þurfa að sitja, þeir þurfa að mæta á fundi og fara í viðtöl og ég veit ekki hvað. Nema þeim sem húrrað er í gegn, eins og þessu fólki. Og auðvitað fer mann að gruna að um ákveðinn klíkuskap sé að ræða. Það er eitthvað mjög skrítið við málið, eða svo finnst okkur.“
„Þetta barn átti víst að vera svo skemmt af fjölskyldu og uppeldi að það er víst ekkert barn jafn illa farið, eða það höfum við í það minnsta fengið að heyra í gegnum tíðina.“
Kaldhæðnin leynir sér ekki í rödd Rikku.
Setjast niður og gráta
„Og það því kemur að það eina sem maður vill gera er að setjast niður og gráta úr sér augun. Af hverju endurtekur þetta fólk sama ruglið ítrekað? Ég hef mótmælt og sagt að þetta passi engan veginn, það sé verið að tala um eitthvað allt annað barn en ömmustelpuna sem ég þekkti. Ég þekki mitt barnabarn og þessi hegðun sem nefnd er í skýrslum sem dæmi um „vandamál“ er bara hún. Hún hefur frá upphafi alltaf kallað eftir mikilli athygli, með góðu eða illu, og þetta eru fyrirframgefnar skoðanir að um sé að ræða hegðun sem hún hafði þróað með sér. Vegna vanda móður.“
Rikka og Guðrún systir hennar héldu samt sem áður ótrauðar baráttunni í þeirri von um að sjá stúlkuna en án árangurs.
„Við Guðrún sóttum um að fá að hitta hana á heimili Guðrúnar en þá kom póstur um að allt væri breytt. Stúlkan væri á leið í sumarbústað en við mættum fara þangað og hitta hana á nálægu kaffihúsi í einn til tvo tíma. Ég var axlarbrotin og nýlega komin úr aðgerð og komst því ekki og þar með var að afgreitt. Systir mín bauðst þá til að fara ein en fékk ekki leyfi til þess.“
Rikka hristir höfuðið.
„Næst fengum við bréf um að það væri of mikil ásókn frá ættingjum og talið að stúlkan þyrfti að fá frið frá okkur. Okkur var sagt að hún vildi ekki hitta okkur, treysti sér ekki til þess eða eitthvað annað. Þetta var endalaust.“
Húrrað í gegn
En eins og Rikka bendir á eru allar þessar skýringar frá þriðja aðila og engar beinar sannanir þess efnis að þessi höfnun á blóðfjölskyldunni hafi í raun komið frá barninu. Og fjölskyldan hefur enga sönnun fyrir að rætt hafi verið beint við barnið eða aðeins fósturforeldrana.
„Ég fór fram á vikulegt símtal, þótt það væri ekki nema til að pirra barnaverndarstarfsmenn, því ég vissi að það yrði aldrei samþykkt. En mér var sagt að hún vildi ekki tala við mig í síma en ég veit raunverulegu ástæðuna. Hún vildi hitta mig. En það varð aldrei neitt úr neinu fyrir utan að hún fékk að koma til mín eina nótt í gistingu.
En það var reyndar áður en þessi ákveðni starfsmaður tók alfarið við málinu því eftir það lokaði hún á allt samband og varanlegu fóstri var húrrað í gegn.“
Aðspurð um af hverju hún telji að þessi ákveðni starfsmaður hafi komið fram af slíkri hörku segist Rikka telja að hugsanlega hafi hún talið sjálfri sér trú um að væri að bjarga barninu frá „hræðilegu“ fólki. Það er að segja fjölskyldunni, burtséð frá því hvort hún vissi eitthvað um fjölskylduna né hafi hún reynt að kynna sér það.
„Hún kom að Laugalandsmálinu og því held ég að Ásta hafi aldrei átt sjens hjá þessari konu og ég ekki heldur því greinilega setur hún mig og dóttur mína undir sama hatt. Fordómar og valdníð er það eina sem mér dettur í hug að sé að henni. Örugglega er það fleira sem týna má til þar sem ótalmargir kvarta undan henni. Ekki góður starfsmaður þar, ef hún ynni í búð væri sjálfsagt löngu búið að reka hana eða hún sett inn á lager. Nei, hún fékk að ráðskast með líf dóttur minnar og barnsins hennar með þessum hörmulegu afleiðingum. Tengslarofið er algjört.“
Ógeðslegur póstur
Rikka reyndi síðast að hafa samband við barnavernd í desember síðastliðnum. Það kom í kjölfar skilaboða sem barnabarn hennar sendi frænku sinni, en þær eru systkinabörn.
„Hún má víst ekki vera í sambandi við frænku sína því hún er svo mikið pakk og hefur svo slæm áhrif á hana,“ segir Rikka kaldhæðin.
„Þetta er yndislegur og heilbrigður krakki svo þetta er algjört kjaftæði. Þær voru óaðskiljanlegar sem börn.“
Rikka sýnir mér fjölda mynda af litlu frænkunum við leik, alltaf hlæjandi.
En stúlkan sendi frænku sinni skilaboð um Rikku sem áframsendi þau á ömmu þeirra. Þetta var ógeðslegur póstur og ég var alveg lömuð. Rikka sýnir blaðamanni skilaboðin og þar er Rikka meðal annars sögð hafa verið í neyslu.
„Ég hef aldrei nokkurn tíma komið nálægt slíku. Maður verður að spyrja sig hvaðan þessar sögur koma?“
Hún segir þær koma frá barnavernd.
Grafa eigin gröf
„Ég var á kafi í mastersnámi í starfs- og námsráðgjöf á þessum tíma eftir að hafa klárað BA gráðu í þjóðfræði en pældu í hvað er búið að segja henni og hvað er búið að skíta mig út. Og ég veit hvaðan þetta kemur að stórum hluta og það er frá afa þeirra og stjúpömmu. Ég er búin að reyna að vera milligöngumaður árum saman og biðja um frið og mildi milli fjölskyldumeðlima en þau grafa eigin gröf en skítinn yfir aðra.“
Rikka taldi þetta ekki svaravert, hún væri búin að gera allt sem hún gæti.
„En mamma mín, dásamleg kona og gæðasál sem aldrei skiptir skapi og vill öllum gott, varð þetta líka reið. Ég hef aldrei séð mömmu svona reiða,“ segir Rikka og hlær við.
„Hún sagði: Anna Friðrikka! Þú lætur þetta ekki óátalið, þú gerir eitthvað í þessu! Þetta fólk er bullandi veikt!“
Svo fór að Rikka fór á fund með yfirmanni sem hlustaði af skilningi. En þá skall á Covid og allt þjóðfélagið svo að segja stöðvaðist.
„Svo kláraðist Covid en ekkert gerðist. Ég fór núna í desember niður í barnavernd með jólapakkann, eins og ég geri árlega, og sagði að í þetta skiptið vildi ég að barnabarnið mitt fengi pakkann fyrir jól. Það hefur nú ekki alltaf gengið eftir, eitt skipti bárust gjafir ekki fyrr en í janúar og í annað skipti var mér bannað að kaupa pakka og skipað að leggja pening inn á bók. En ég sagði nei, kemur ekki til mála. Ég gef barnabarni mínu jólapakka.“
Rikka segist hafa verið ósátt yfir þessum skilaboðum sem barnabarn hennar sendi frænku sinni.
Ærumeiðandi rógburður
„Ég sagði að kæmu þessar röngu upplýsingar frá barnavernd væri það mjög alvarlegt mál. Um væri að ræða ærumeiðandi rógburð. Með þessu var vegið að mínu mannorði og það af opinberri stofnun. Að ríkisrekin stofnun tali svona um ömmu barns við það er háalvarlegt mál.“
Rikku var sagt að það sem kæmi fram í póstinum hann hefði ekki komið frá barnavernd en hún er ekki svo viss. „Hvernig get ég verið viss um það? Sé miðað við allt sem gengið hefur á, á ég bara að trúa því að ekki sé verið að rægja mig í eyru barnsins? Fyrrverandi maður minn, afi barnsins og kona hans, hafa horn í síðu minni og hafa alltaf haft. En þau eru ekki í minni sjónlínu, ég vil fá frið fyrir þeim, ég læt þau í friði og vil að þau þau láti mig í friði. Að ég fái sömu virðingu og ég veiti þeim.“
Rikka spyr hvað geti verið orðsporinu mikilvægara? „Mitt orðspor skiptir mig öllu og ég krafðist að þessi vitleysa yrði rekin upp. Þá varð starfsmaðurinn reyndar óttalega vesældarleg og sagði að stúlkan ætti nú til með að ljúga. En þá fauk í mig. Átti að kenna barninu um þetta? Hún er að hafa eftir það sem henni er sagt. Henni myndi aldrei detta í huga að búa til svona vitleysu.“
Rikka segir að einnig sé búið að halda því statt og stöðugt fram að mamma hennar sé algjör og ólæknandi fíkill.
Bláedrú
„Ég man eftir að hafa setið við hlið hennar þegar Ásta fékk að tala við dóttur sína og hún var eins bláedrú og unnt er að vera. En samt sem áður segir í skýrslum barnaverndar að telpunni líði svo illa því mamma hennar sé alltaf undir áhrifum í símtölum, hún sé algjör fíkill. Mamma hennar, dóttir mín Ásta, bjó hjá mér á þessum tíma og ég sat við hliðina á Ástu á meðan að þessi símtöl áttu sér stað og hún var eins bláedrú og unnt er að vera og hefur verið frá 2018. Hún vann á fasteignasölu og bæði yfirmenn og samstarfsfólk skrifuðu meðal annars meðmælabréf með henni.“
Rikka er sár og reið yfir að búið sé að búa til mynd af sífullum dópista í huga barnsins, dópista sem hafi aðeins samband við barnið í gegnum síma.
„Ásta er með ADHD og getur verið ör en hún var ekki í neyslu. Ég þekki dóttur mína. Og ef að mamma hefði ekki verið þetta ákveðin hefði ég ekki gripið til aðgerða en í þetta skiptið fór ég og krafðist þess að þetta yrði stöðvað. Hin barnabörnin mín eiga ekki skilið á að lenda í slíkri lygi og þvælu, er ekki komið nóg?“
Þetta var fyrsta viðtalið þar sem Rikka brotnaði gjörsamlega niður fyrir framan yfirmanninn og sagðist ekki geta meira. Hún væri búin á því.
Engin huggun
„Það eina sem barnaverndarstarfsmaðurinn sagði var að ég ætti ekki að gefa upp alla von, fjöldi barna kæmi (kannski) síðar meir. En ég sagði henni að það veitti mér ekki nokkra huggun. Ekki nokkra einustu, það kveldi mig enn meira að heyra slíkt því hún vissi ekkert hvað hún væri að tala um.
Það er aldrei hægt að gefa mér aftur þær stundir sem hafa verið teknar af mér með barnabarninu mínu. Öllum þeim gæðastundum sem við hefðum getað átt, eðlilegu lífi í raun, var stolið af okkur og ég fær þær aldrei til baka.“
Rikka veit ekkert hvað hefur gerst síðan. Hún hefur ekki hitt barnabarnið sitt í fjögur ár.
„Hún er búin að vera hjá þessu fólki frá því hún var á tólfta ári, bróðurpartinn af unglingsárunum, en þetta er ekki lengri tími en það samt.“
Rikka segir að vissulega hafi dótturdóttir hennar átt erfitt og hún efist ekki um að hún hafi þurft að fá hjálp. En hún á ekki til orð yfir að hvernig málum var staðið.
„Systir mín sagði mér frá því að hún hefði fengið að koma einu sinni til þeirra. Þau fóru og fengu sér ís og fóru í sund og svo keyrði hún hana á æfingu, ég veit ekki einu sinni í hvað íþrótt, því ég veit ekkert um hana, ég fæ engar fréttir. Nema hvað, eftir þá heimsókn barst bréf þar sem þessi sami starfsmaður sagði að ekki yrði um frekari umgengngi að ræða þar sem barnið hafi verið í uppnámi og átt erfitt eftir heimsóknina auk þess sem Guðrún hefði leyft henni að hringja í móðursystur sína.
Guðrún systir var bara orðlaus og hún er manneskja sem aldrei fer út fyrir reglurammann. Hún er sérkennari, á fötluð börn og þarf að hafa skipulag á öllu til að láta hlutina fúnkera. Eiginlega er systir mín gangandi excel-skjal.“ Rikka brosir yfir þessu.
Ekki boðið í ferminguna
„Systir mín brýtur ekki reglur, punktur. Svo hún sendi bréf og sagðist ekki kunna að meta að vera vænd um lygi. Stelpan hefði ekki hringt í einn eða neinn og það væri nú allt í lagi að taka tillit til þess að barnið væri að koma úr umgengni og kannski saknaði hún ættingja sinna. En samkvæmt þessum starfsmanni barnaverndar var þetta meinta símtal þvílíkur glæpur.“
Fjölskyldunni var ekki boðið í fermingu barnsins þótt Rikka skrifaði þessum sama starfsmanni bréf.
„Ég sendi líka skilaboð á fósturmóðurina, eða fóstðuraðilann eins og kýs að nefna hana, ég get bara ekki sagt móðir, fæ óbragð í munninn, og voru þetta mjög kurteis og innileg skilaboð. Ég sagðist sakna dótturdóttur minnar mikið og væri að hugsa út í fermingargjöf handa henni og hvort ég gæti fengið fréttir af henni, og þá ekki síst fyrir aldraða foreldra mína.
Hún las þau ekki. Þessi kona er ekki góð manneskja, og allra síst sé litið til þess hvað hún er búin að vera að gera með þessum barnaverndarstarfsmanni. Það er alveg klárt.“
Hef ekkert að fela
Rikka telur að það sé búið að rugla mikið í dótturdóttur hennar.
„Eftir þennan dag með systur minni, þegar þær fóru í sund og fengu sér ís, tók þessi barnaverndarstarfsmaður sér endanlega öll völd. Ég hef margskrifað þessar konu bréf, alltaf kurteis en ég var einu sinni reið og sagði hana leynt og ljóst hafa tálmað umgengni mína við barnabarn mitt. Ég á öll gögn, öll samskipti og hef ekkert að fela. Ég er búin að reyna allt mögulegt í gegnum tíðina nema að að fara í mál því ég hef einfaldlega ekki slíkt fé á milli handanna, og það veit barnavernd vel.“
Rikka tekur fram að það sé að hennar mati að finna ágætis fólk hjá barnavernd en þessi ákveðni starfsmaður hafi gert líf hennar og fjölskyldunnar að hreinu helvíti.
„Ég veit ekki af hverju sumt af þessu fólki hagar sér eins og það gerir og alveg sérstaklega þessi kona. Ég var farin að mæta með fólk með mér á fundi til að hafa vitni og ég man hvað mágkona mín, sem starfsmaðurinn krafðist þess að vita hvað væri að gera á fundinum, og ég sagði það ekki hennar mál, hún væri með mér, var hneyksluð. Hún var standandi bit á að konan endurtæki bara sama frasann aftur og aftur, að stúlkan ætti sitt einkalíf og upplifanir og bæri að virða það.“
Fárveik, ekki vímuð
Eitt af því sem kemur fram í bókunum þessarar konu er að stúlkan hafi sagt að mamma hennar hafi verið undir áhrifum þegar hún talaði við hana í síma. Barnið fullyrði það því hún þekki hana svo vel.
„En ég sat við hlið mömmu hennar þegar eitt þessara símtala átti sér stað og þá var dóttir mín nýkomin úr erfiðri tannviðgerð. Ásta var fárveik og með bullandi hita en vildi alls ekki hætta við símtalið við dóttur sína af ótta við að vera refsað fyrir það. Auðvitað talaði hún ekki skýrt en það var stórega dregið úr umgengni eftir þetta símtal, sama hvað ég reyndi að útskýra að dóttir mín hefði verið í erfiðri tannaðgerð. En þessi kona neitaði að hlusta á mig.
Ég margsagði að ég hefði setið við hlið hennar, hún hefði ekki verið undir neinum áhrifum, bara að koma úr aðgerð og veik.
Ég sagði ennfremur að það þyrfti að leiðrétta þetta, segja barninu sannleikann, að móðir hennar hefði alls ekki verið undir áhrifum, bara mjög deyfð eftir aðgerðina, en eina svarið sem ég fékk að þetta væri „hennar upplifun“ og það mætti ekki hrófla við því. Hennar upplifun eða hvað hún taldi sig finna á sér var víst mikilvægara en sannleikurinn.“
Vald og yfirgangssemi
Rikka spyr hvernig það megi vera að barnið sé látið halda að móðir hennar sé í eiturlyfjavímu daginn út og daginn inn þegar það sé alls ekki rétt?
„Fólk trúir þessu bara ekki án þess að verða vitni að þessum samtölum við barnavernd. Það má ekki segja barninu að móðir hennar sé ekki að neyta neinna eiturlyfja. Hún er bara látin halda það, ár eftir ár, að mamma hennar liggi á götunni með nálina í handleggnum og pilluboxin á brjóstkassanum.Við vitum öll innst inni að rétt skal vera rétt.“
Rikka segir að vissulega þurfi stundum að taka börn af foreldrum sem eru alls óhæfir.
„Við vitum það öll. En það er þessi árátta að aðskilja börn frá foreldrum og ættingjum, með valdi og yfirgangssemi og þá helst til frambúðar, sama hvað foreldrar taka sig á, sem ég skil ekki. Og hvað með okkur hin? Ömmurnar og afana og frænkurnar og frændurnar? Sem aldrei hafa verið í neinu veseni, hvað þá neyslu? Ofurvenjulegt fólk sem elskar þessi börn?
Það er löngu komin tími til að við stígum fram og segjum okkar sögu.
Lífs eða liðin?
Ég heyri marga talað um peningahliðina á þessu en hef aldrei fókuserað á þann vinkil heldur þessa mannskemmandi valdníðslu og sálarmorð sem framin eru. Er barnabarnið mitt lífs eða liðið? Ég hreinlega veit það ekki og ég var til dæmis alveg ómöguleg í Covid faraldrinum, ekki vitandi neitt um hennar heilsu. Ég fæ ekki að vita neitt um barnabarnið mitt sem ég vissi allt um hér áður.
Og það er ólýsanlega sárt og erfitt.“
Rikka segist aldrei hafa trúað því hér áður fyrr að barnaverndaryfirvöld kæmu fram á þennan hátt, allt slíkt hlyti að vera einn stór misskilningur.
„Eins og flestir trúði ég því af öllu hjarta að barnavernd gerði aldrei neitt rangt, þeir væri bara að taka börn af fólki sem væri þeim vont eða gæti ekki séð um þau.“
En hún segist vita betur í dag og það af sárri reynslu. „Að þurfa að berjast endalaust við fordómafulla kerlingu sem ræður bókstaflega öllu ervarðar líf fjölskyldna í skjóli kerfisins. Fólk þarf að vita af þessari leynd, tálmun og skipulögðum rofum fjölskyldutengsla. Ég er viss um að langflestir hafa ekki hugmynd um þetta.
Og þennan skort á samkennd og kærleika,“ segir Rikka að lokum.