Íþróttavikan er komin á fulla ferð hér á 433.is og í Sjónvarpi símans. Helgi Fannar Sigurðsson og Hrafnkell Freyr Ágústsson fá til sín góða gesti í hverri viku og ræða það helsta úr heimi íþrótta. Í þetta sinn var gesturinn fyrrum Alþingismaðurinn Brynjar Níelsson.
KSÍ gaf út yfirlýsingu á dögunum í kjölfar þess að tveimur íslenskum dómurum bárust líflátshótanir. Málið er litið alvarlegum augum.
„Ég er ekki viss um að þetta sé að verða grófara. Ég man alveg hvernig menn töluðu í gamla daga. Ég held að þetta sé jafnvel bara skárra en það var. Það er bara gert meira úr hverju tilviki en áður. Það er mín tilfinning,“ sagði Brynjar í þættinum.
„Reiðiviðbrögð eru þekkt fyrirbæri. Það er ekki ný uppfinning. En ef menn ganga of langt þurfa þeir að taka ábyrgð á því. Það er mjög leiðinlegt ef menn hafa ekki stjórn á eigin tilfinningum. Þá er eitthvað mikið að.“
Önnur hótunin barst í gegnum talskilaboð. „Þú þarft að vera gjörsamlega truflaður til að ranka aldrei við þér og hugsa þinn gang,“ sagði Hrafnkell. „Þetta er angi samfélagsmiðla. Það er hægt að ná til allra í dag.“
„Já, þeir eru stóra vandamálið í öllu,“ skaut Brynjar inn í.
Átak til að reyna að stöðva þetta mun engu breyta að sögn Brynjars.
„Það mun engu breyta. Það er alltaf verið að eyða peningum í forvarnir og átök en það breytir bara engu. Mannskepnan er bara eins og hún er. Gleymið því að eyða peningum í þetta allavega.“
Umræðan í heild er í spilaranum.