Aleksandr Lúkashenko, forseti Hvíta-Rússlands, hefur engan áhuga á að láta draga sig inn í stríðið og hefur staðist þrýsting Vladímír Pútíns, Rússlandsforseta, um að blanda sér beint í átökin. Hann er í erfiðri stöðu því hann er mjög háður Pútín, bæði efnahagslega og pólitískt. En enn sem komið er hefur hann ekki sent her sinn inn í Úkraínu.
Kyrylo Budanov, yfirmaður leyniþjónustu úkraínska hersins, sagði nýlega í samtali við miðilinn Raznye Ljudy að Úkraínumenn hafi átt í leynilegum samskiptum við Lúkashenkó. Niðurstaða þessara samskipta hafi verið svo góð að Pútín hafi gefið upp vonina um að draga Lúkashenkó inn í stríðið.
„Hvort sem okkur líkar við hann eða ekki, þá er Lúkashenkó ekki bjáni. Hann vill ekki endurtaka 24. febrúar 2022. Í raun var hans skoðun ekki tekin til greina þá og síðan hefur hann komist að eigin niðurstöðu,“ sagði Budanov.
Hann sagði að Úkraínumenn hafi beitt öllum brögðum til að koma á góðum viðræðum við Hvítrússa. Meðal annars var úkraínski þingmaðurinn Yevhenyi Shevchenko fenginn til að ræða við Lúkashenkó til að koma í veg fyrir að Hvítrússar myndu ráðast á Úkraínu.
Shevchenko er mjög umdeildur í Úkraínu en hann átti í góðum samskiptum við Lúkashenkó fyrir stríð og þessi tengsl þeirra komu sér vel eftir að stríðið hófst.