Í leyniskjölum, sem var lekið á netið, kemur fram að Prigozhin hafi verið í sambandi við úkraínsku leyniþjónustuna allt frá upphafi stríðsins í Úkraínu og hafi boðið henni upplýsingar um keppinauta sína í rússneska hernum.
Samkvæmt því sem kemur fram í Washington Post, þá bauð Prigozhin Úkraínumönnum upplýsingar um staðsetningar rússneska hersins. Í staðinn fyrir þessar upplýsingar áttu Úkraínumenn að hætta árásum á Wagnerliða í Bakhmut.
Úkraínumenn eru sagðir hafa hafnað þessu tilboði hans því þeir hafi ekki treyst honum.
Á rússneskan mælikvarða er þetta sívaxandi hneyksli en óvíst er hversu mikil áhrif þetta mun hafa á stöðu Prigozhin. Það veltur á hvernig ráðamenn í Kreml túlka þetta.
Fram að þessu hafa flestir opinberir fjölmiðlar og áberandi stuðningsmenn stjórnvalda stigið varlega til jarðar í málinu og þykir það benda til að ekki sé búið að komast að endanlegri niðurstöðu á æðstu stöðum.
Prigozhin á marga óvini beggja megin víglínunnar og margir þeirra hafa eflaust áhuga á að koma af stað sögum sem láta hann líta út fyrir að vera ótraustan mann sem ógn stafar frá.