Þetta er mat bandaríska stjórnmálafræðingsins Ian Bremmer sem stofnaði hugveituna Eurasia Group og er einn fremsti stjórnmálaskýrandi heims.
„Ég sé ekki góða niðurstöðu úr þessu og ég sé eina mjög hættulega niðurstöðu sem þarf að takast á við. Við stefnum í átt að henni,“ sagði hann í samtali við TV2 News þar sem hann veitti innsýn í þá heimsmynd sem hann telur að verði ráðandi vegna stríðsins. Óhætt er að segja að hann hafi ekki dregið upp uppörvandi mynd.
Hann sagði að ákvörðun Vladímír Pútíns um að ráðast inn í Úkraínu hafi haft landfræðipólitíska jafnvægisgöngu í för með sér sem sé enn hættulegri en sú sem átti sér stað í Kúbukrísunni 1962. Þá höfðu bæði Bandaríkin og Sovétríkin í hótunum um að beita kjarnorkuvopnum og hefur heimurinn líklega aldrei verið nær því að upplifa kjarnorkustríð.
En Bremmer sagði að núverandi krísa sé ekki nýtt kalt stríð, nú er staðan verri. „Rússar hafa ekki verið afvopnaðir, þeir eru miklu reiðari og það eru ekki sömu öryggisbeltin í þessu sambandi eins og voru á tímum Bresnehv, Krúsjovs, Andropov, Tjernenko eða Gorbachev og þetta er hræðileg staða til að vera í,“ sagði hann.
Hann varaði fólk við því að byggja upp of mikla trú á að samið verði um að stríðsaðilar leggi niður vopn og bardagar verði stöðvaðir og um leið komist friður á. „Það getur vel farið svo að það verði vopnahlé og hlé á bardögum en það verður áfram skipst á skotum við víglínuna og Rússar verða enn með úkraínskt landsvæði á sínu valdi. Þetta mun ekki verða eins og friður fyrir Úkraínu eða Rússland,“ sagði hann og bætti við að í framhaldinu getir Rússar ekki tekið upp samskipti við Bandaríkjamenn eða Evrópubúa eða gert stöðu Pútíns gagnvart heimsbyggðinni eðlilega á nýjan leik.
„Þetta þýðir, í öllum þeim sviðsmyndum sem ég sé fyrir mér, að Rússar verða enn andstæðingar NATO. Rússland verður áfram talið aðalógnin við Bandaríkin og Evrópu og Rússar munu telja Evrópubúa og Bandaríkjamenn sem helstu ógnina við sig,“ sagði hann.
Hann sagði að fólk þurfi að venja sig við stöðu sem má líkja við stöðu Suður-Kóreu sem býr daglega við ógn frá Norður-Kóreu og árás kjarnorkuveldisins.
Pútín tilkynnti fyrr á árinu að Rússar myndu segja sig frá afvopnunarsamningi við Bandaríkin hvað varðar kjarnorkuvopn. „Þú neyðist til að vera pínulítið hrædd(ur). Það er ekki hægt að telja þetta eðlilegt. Þegar ég var að alast upp vorum við með samninga um kjarnorkuvopn og nú hverfa þeir allir. Áður fyrr varaði maður aðra við áður en maður gerði tilraunir með flugskeyti svo ekkert óvænt myndi gerast. Það gerir maður ekki lengur,“ sagði hann.