fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Fréttir

Grafalvarleg staða hjá Siðmennt – Kolsvört útkoma á rekstri síðasta árs – „Ég er í raun eitt stórt spurningarmerki“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 16. maí 2023 18:45

Inga Straumland formaður t.v. og Siggeir Ævarsson, sem rekinn var úr starfi framkvæmdastjóra, t.h.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Töluverðar áhyggjur eru á meðal sumra félaga í lífskoðunarfélaginu Siðmennt vegna upplýsinga sem koma fram í nýlegri fundargerð eftir stjórnarfund félagsins 4. maí. Segir þar að verkefnastjóri borgaralegra ferminga og verkefnastjóri athafnaþjónustu fræðslumála hafi sagt upp störfum. Ennfremur hættir verkefnastjóri fræðslumála störfum í lok árs. Þá segir að beðið sé með ráðningar í þessar stöður á meðan fjárhagsstaða félagsins sé í skoðun.

Fyrir liggur að Sigþrúður Guðmundsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri félagsins, hætti eftir sjö mánaða starf. Hún tók við af Siggeiri Ævarssyni sem var rekinn fyrirvaralaust í apríl árið 2022. Ráðningarþjónustufyrirtæki voru greiddar um 500 þúsund krónur fyrir að mæla með Sigþrúði í starfið, en hún hóf störf um fimm mánuðum eftir að Siggeir hafði verið rekinn.

Nýráðinn framkvæmdastjóri er Eyjólfur Örn Snjólfsson. Lengi hafa starfsmenn Siðmenntar verið fjórir talsins hverju sinni en ef heldur fram sem horfir verður Eyjólfur eini starfsmaðurinn í árslok.

Aðalfundur Siðmenntar var í mars og í fundargerð hans kemur fram að tap var á rekstrinum á síðasta ári upp á rúmlega 7,5 milljónir króna. Það er mjög snarpur viðsnúningur á rekstrinum sem var um fimm milljónir í plús árið á undan. Siðmenntarfélagar sem DV hefur rætt við eru mjög áhyggjufullur yfir fjárhagsstöðu félagsins og mikilli starfsmannaveltu.

„Hvað er eiginlega að gerast í félaginu mínu? Eru allir hættir þarna?“ segir ónefnd kona í samtali við blaðamann.

„Félagið hefur fengið tímabundinn yfirdrátt til að geta staðið við skammtímaskuldbindingar sínar, jafnframt er verið að selja ríkisbréf til að bæta lausafjárstöðu felagsins,“ segir í fundargerðinni.

Þetta er mikill viðsnúningur á rekstrarstöðu félagsins til hins verra á mjög skömmum tíma en Siðmennt hefur undanfarin ár verið rekin með nokkurra milljóna króna hagnaði.

Inga Auðbjörg Straumland, formaður Siðmenntar, segir þátttöku í Heimsþingi húmanista í fyrra ráða miklu um snöggversnandi fjárhag félagsins en hún telur rekstrargrundvöll þess traustan. Rætt er við Ingu neðar í greininni.

Ósáttur við starfslok

Siggeir Ævarsson, sem sagt var upp störfum sem framkvæmdastjóri í fyrra, var afar ósáttur við starfslok sín og fór yfir þau í Facebook-færslu um síðustu áramót. Þar segir:

Í apríl var ég óvænt kominn í 5 mánaða sumarfrí. Sú staða kom ansi flatt upp á mig og allur asinn við að losna við mig úr starfi sat þungt í mér og gerir enn. Það er skrítin tilfinning að vera tilkynnt, eftir þrjú og hálft ár í starfi, að vera allt í einu ekki lengur rétti maðurinn í starfið. Og ekki nóg með það, heldur vera beðinn um að hætta á punktinum, skila lyklavöldum og hent út úr öllum samskiptum við alla vinnufélaga áður en klukkan sló tólf á hádegi. Takk fyrir ekki neitt, tak sæng þína og gakk. Hugsanir mínar um þessi óvæntu starfslok rændu mig svefni margar nætur í röð fyrstu vikurnar eftir 20. apríl. Eftir að hafa helgað líf mitt og megnið af mínum frítíma að miklu leyti þessu starfi í rúm þrjú ár þóttu mér þetta kaldar kveðjur. Mér fannst ég einfaldlega svikinn af fólki sem ég áleit vini mína, fólki sem ég hef varið miklum tíma með í leik og starfi, ferðast með, boðið heim til mín og heimsótt. Ég er enn sömu skoðunar en ég reyni að dvelja ekki við þessar hugsanir, en þær skjóta enn reglulega upp kollinum. Þau verða bara að eiga þessa hegðun við sig og sinn guð, en í mínum huga er þessi uppsögn skólabókardæmi um það hvernig eigi ekki að segja fólki upp nema þér sé sérstaklega illa við það og þú viljir valda þeim sem mestum sárindum.

Þetta er ekki í eina skiptið sem fyrrverandi starfsmaður hjá Siðmennt reifar óánægju með starfslok sín. Stjórn félagsins hefur áður verið sökuð um hörku og kuldalegt viðmót við uppsögn á starfsfólki. Árið 2020 var Jóhanni Björnssyni, fræðslustjóra fermingarstarfs til áratuga, sagt upp. Jóhann var brautryðjandi í fermingarstarfi Siðmenntar. Sjá nánar hér. Siðmenntarfélagar sem DV ræddi við þá töldu uppsögnina mega rekja til persónulegar óvildar Ingu Auðbjargar Straumlands, formannns Siðmenntar. Sjá nánar hér. Viðmælendur bentu á að ekki væri hugmyndafræðilegur ágreiningur milli Jóhanns og stjórnar Siðmenntar og ekkert benti til að áherslum í fermingarfræðslunni, sem hann hafði mótað, yrði breytt.

Siggeir telur uppsögn sína vera sérstaklega sérkennilega í ljósi þess árangurs sem hann náði í rekstri félagsins. Hann bendir á að hann hafi rekið félagið með miklum hagnaði. Grunar hann að mikil starfmannavelta eigi stóran þátt í því hve illa hefur farið með reksturinn á stuttum tíma.

„Ég held að fólk og stjórnir félagasamtaka átti sig ekki alltaf á hversu víðtækt og fjölbreytt starf framkvæmdastjóra er í stóru félagi með fáa starfsmenn. Ég skilaði af mér þremur ársreikningum sem voru allir rúmar 5 milljónir í plús, en svo er sveifla niður á við um 13 milljónir þegar ég hverf á braut. Það er margt í þeim ársreikningi sem ég fæ engan botn í, sama hvernig ég rýni í tölurnar. Ég fæ ekki betur séð en þeir fjölmörgu boltar sem ég hélt á lofti hafi margir hverjir lent harkalega á jörðinni og mölbrotnað. Og nú er félagið rekið á yfirdrætti, sem er óskiljanlegt,“ segir Siggeir í viðtali við DV.

Í ársreikningi má sjá gífurlegt tap á giftingum, yfir 10 milljónir á síðasta ári. Eðlilega fylgir mikill útlagður kostnaður athöfnum sem Siðmennt gengst fyrir en verðleggja þarf þjónustuna þannig að útkoman sé í plús. Það hefur gengið prýðilega undanfarin ár, allt þar til á síðasta ári. Ónefndir viðmælendur DV innan Siðmenntar spyrja hvort mögulega hafi verið hætt að rukka fyrir akstur þegar gift er á fjarlægum stöðum, það sé bagalegt ef svo sé, því athafnastjórinn sjálfur fái alltaf greitt fyrir aksturinn hjá félaginu. (Sjá svör Ingu Straumland við þessu neðar í greininni). Þessi kostnaðarliður getur samt ekki útskýrt þennan mikla viðsnúning til hins verra í rekstrinum. Aðrir óttast að vanrækt hafi verið að innheimta gjöld fyrir athafnir. Starfið útheimtir mikla yfirsýn og mikil starfsmannavelta kann að hafa stíflað upplýsingastreymi og mögulega hefur orðið óreiða í bæði bókhaldi og innheimtu. Þetta er þó með öllu óstaðfest og Inga hafnar þessari tilgátu, eins og nánar er vikið að síðar.

Þess má geta að fermingar Siðmenntar eru enn reknar með töluverðum hagnaði, sem þó nær ekki að afstýra því að afkoman er í miklum mínus.

„Ég er í raun eitt stórt spurningarmerki,“ segir Siggeir um stöðuna. „Núna virðist starfsfólki vera að fækka úr fjórum í einn á sama tíma og umsvif aukast mikið. Það hlýtur að þýða að félagið sé að fara að stíga mörg ár aftur í tímann í þjónustustigi.“

Rekstrargrundvöllur félagsins er þó að mínu mati traustur“

DV sendi Ingu Auðbjörgu Straumland, formanni Siðmenntar, nokkrar spurningar, sem hún svaraði ítarlega. Í fyrsta lagi var spurt hvað valdi mikilli starfsmannaveltu hjá félaginu og hvort hún sé áhyggjuefni.

„Það er alveg rétt að starfsmannaveltan hefur verið talsverð miðað við stærð skrifstofunnar og vissulega getur það verið áhyggjuefni. Ég get þó ekki tjáð mig um málefni einstaka starfsfólks. Þessi staða gefur okkur tilefni til að endurskoða verkefnadreifingu, og það verður verkefni stjórnar og nýs framkvæmdastjóra að meta stöðuna,“ segir Inga.

Varðandi athugasemdir um litlar breytingar á yfirstjórn félagsins undanfarin fjögur ár þá bendir Inga á að mikil endurnýjun hafi orðið á stjórninni fyrir fjórum árum. „Fyrir fjórum árum varð mjög mikil endurnýjun í stjórn og í raun er aðeins einn fulltrúi úr stjórn starfsársins 2018-2019 í núverandi stjórn (og situr í henni sem varafulltrúi). Stjórnin sem tók við 2019 og starfaði til 2020 var svo með blöndu úr fyrri stjórnum og nýliðum, og aðeins þriðjungur þeirrar stjórnar er í stjórn í dag. Síðan þá hafa verið talsverðar breytingar á stjórn og á aðalfundi félagsins í mars komu þrír nýir félagar í stjórnina, þar af nýr varaformaður. Ég tel því ekki að endurnýjun hafi verið óeðlilega lítil í stjórninni. Siðmennt hefur, eins og flest önnur félagasamtök, lýðræðislega kjörna stjórn, svo öllum félögum gefst kostur á að bjóða sig fram til góðra verka.“

Traustur grundvöllur og innheimtu ekki ábótavant

Um ástæður fyrir versnandi fjárhagsstöðu félagsins segir Inga:

„Fjárhagsstaða félagsins versnaði til skamms tíma, meðal annars vegna aukinna útgjalda sem tengjast þátttöku í Heimsþingi húmanista. Rekstrargrundvöllur félagsins er þó að mínu mati traustur, enda fáum við sóknargjöld sem síðustu ár hafa hækkað talsvert á milli ára, vegna fjölgunar félaga. Þá eru oft margir stórir kostnaðarliðir á vorin, svo sem stórar fermingarathafnir í Hörpu.

Stjórn félagsins tók ákvörðun um að taka óvenjumikinn þátt í Heimsþingi húmanista sem fram fer í Kaupmannahöfn í ágúst, þar sem Ísland er einn af gestgjöfum þingsins, ásamt samtökum húmanista á hinum Norðurlöndunum. Við vildum tryggja að sendinefnd Íslands yrði á pari við sendinefndir annarra Norðurlanda og jafna aðgengi almennra félaga til þátttöku í alþjóðastarfi og greiðum því talsvert niður þátttöku 20 einstaklinga í Heimsþinginu. Stórir kostnaðarliðir við þetta verkefni, eins og bókun á flugi og gistingu, féllu til rétt fyrir mánaðamót og því neyddist félagið til að taka yfirdrátt til að standa undir launakostnaði, eins og fram kemur í fundargerð. Félagið fær þó sóknargjöldin greidd einu sinni í mánuði, í kringum miðjan mánuð, og var yfirdrátturinn því aðeins til skamms tíma og hefur nú verið að fullu greiddur. Þá tók nýr framkvæmdastjóri við félaginu 1. maí, svo ég á ekki von á öðru en fjárhagsleg yfirsýn verði skýrari.

Starfsemi félagsins hefur vaxið gríðarlega mikið á síðustu árum. Giftingum fjölgaði til dæmis um 60% milli áranna 2021 og 2022 og fermingarbörnin í ár voru næstum 20% fleiri en í fyrra. Við notum sóknargjöldin til að greiða með bæði athöfnum og fermingarfræðslu, enda er það hluti af kjarnatilgangi félagsins að veita félagsfólki þessa þjónustu. Það þýðir að þegar þjónustuþegum fjölgar, þá aukast umsvifin á skrifstofu félagsins og við höfum þurft að fjölga starfsfólki talsvert hratt; stöðugildin sem voru tvö fyrir ári síðan hefur nú verið fjölgað í 3,2 eins og þau voru megnið af síðasta starfsári. Hins vegar er ekki hægt að gera ráð fyrir því að gjöld fyrir þjónustu félagsins dekki fullkomlega þessa aukningu kostnaðar, enda eru þjónustugjöldin misjöfn eftir því hvort þjónustuþegarnir séu félagsfólk eða ekki.“

DV bar undir Ingu þá tilgátu að innheimtu sé ábótavant og þar spili starfsmannaveltan inni í. Hún tekur ekki undir þetta heldur segir:

„Nei, ég kannast ekki við að innheimtu sé sérstaklega ábótavant hjá félaginu, þó vissulega megi straumlínulaga hana eins og margt annað hjá svona ört stækkandi félagi. Hluti þjónustugjalda vegna athafna og fermingarfræðslu er rukkaður sjálfkrafa inn við bókun og svo er afgangurinn innheimtur þegar nær dregur og betur skýrist hver aksturskostnaðurinn verður (þar sem staðsetning er oftar en ekki óljós við bókun, marga mánuði fram í tímann).“

Inga hafnar því einnig að stóraukinn kostnaður vegna aksturs sé orsakavaldur í rekstrartapinu:

„Nei. Stóraukinn kostnaður vegna aksturs orsakast einfaldlega af stórauknum fjölda giftinga. Akstur er í langflestum tilfellum greiddur af þjónustuþegunum sjálfum, nema í þeim tilfellum þar sem aðgengisstefna Siðmenntar, sem meðal annars tryggir jafnt aðgengi að athöfnum félagsfólks óháð búsetu, veldur því að félagsfólk á stöðum þar sem engir athafnastjórar búa, fær felld niður akstursgjöld. Þau tilfelli eru ekki mörg, enda fara langflestar athafnir fram í þéttbýlisstöðum, eða á ferðamannastöðum, fyrir erlend pör, sem eðli málsins samkvæmt eru ekki félagsfólk og falla ekki undir þessa klausu aðgengisstefnunnar. Þá virðast tekjur af akstursgreiðslum erlendra þjónustuþega hafa verið lyklaðar á mismunandi hátt eftir starfsfólki og því endurspeglar tekjuliðurinn af akstri ekki rauntekjur vegna hans.“

Hvers vegna er svona mikið tap á giftingum?

Eins og kom fram áður er tap á giftingum hjá Siðmennt rúmlega 10 milljónir króna á síðasta ári. Inga bendir á að hjónavígslur fyrir félagsfólk eru mikið niðurgreiddar. Einnig valdi mismunandi skráningar á gjöldum nokkru um hvað mikið tap er skrifað á þennan rekstrarlið:

Hjónavígslur fyrir félagsfólk eru mikið niðurgreiddar, en ef bæði hjónaefni eru félagar, annað hvort skráð þannig hjá Þjóðskrá eða greiða árleg félagsgjöld, þá fá þau 60% afslátt af athöfninni. Við höfum ekki gert kröfur um lágmarkslengd félagsaðildar, og því er afslátturinn í sumum tilfellum framtíðarlán hjá sóknargjöldum næstu ára; það er þeim sóknargjöldum sem við fáum fyrir félagsaðild viðkomandi, skrái þjónustuþeginn sig ekki aftur úr félaginu. Þetta veldur bókhaldslegu tapi á þessum lið, en stendur undir framtíðartekjum undir félagsgjaldalið annars staðar.

Þá hefur komið í ljós að greiðslur frá erlendum þjónustuþegum sem greiddu í gegnum kortagátt (það er voru ekki á vegum ferðaskrifstofa) voru bókaðar á mismunandi hátt eftir starfsfólki og vantar því tekjur vegna þeirra eftir 1. maí í fyrra. Þær tekjur endurspeglast í liðnum fyrirfram innheimtar tekjur. Kostnaðurinn við þessar athafnir (verktakagreiðslur athafnastjóra) var hins vegar bókaðar á giftingar og kemur því út sem tap.

Samanlagt útskýra þessar niðurgreiðslur annars vegar og mismunandi verklag í bókhaldi hins vegar, um það bil sinn hvorn helminginn af þessum 10 milljónum. Ég ítreka að niðurgreiðslurnar borga sig upp á minna en tveimur árum, séu þjónustuþegar áfram félagar í Siðmennt.

Loks telur Inga ekki óeðlilegt að Siðmennt hafi varið hálfri milljón króna til ráðgjafarfyrirtækis vegna framkvæmdastjóra sem hætti eftir sjö mánuði: „Mér þykir ekki óeðlilegt að félagasamtök verji fé í ráðningar. Ráðningarferlið var að mínu mati vandað og ófyrirséð að nýr framkvæmdastjóri myndi segja upp innan við ári síðar.“

Hvað sem þessum svörum formannsins líður stendur eftir sú staðreynd að tap var á rekstri félagsins á síðasta ári um rúmlega 7,5 milljónir króna og versnaði afkoman um 13 milljónir frá árinu á undan. Formaðurinn telur engu að síður að félagið standi traustum fótum fjárhagslega og bendir meðal annars á væntingar um auknar tekjur af sóknargjöldum.  

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Stóra fíkniefnamálið: Skuldaði höfuðpaurnum tíu milljónir og fór í örlagaríka ferð með skemmtiferðaskipi

Stóra fíkniefnamálið: Skuldaði höfuðpaurnum tíu milljónir og fór í örlagaríka ferð með skemmtiferðaskipi
Fréttir
Í gær

J.D. Vance verður varaforsetaefni Donald Trump

J.D. Vance verður varaforsetaefni Donald Trump