„Ég er bara mjög ánægður með hvernig byrjunin var, fyrri hálfleikurinn ekkert sérstakur en síðari hálfleikurinn góður,“ sagði Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, í viðtali í hlaðvarpsþætti 433.is um Lengjudeildina.
Afturelding vann Selfoss í fyrstu umferð en tekur á morgun á móti Þór í 2. umferð, leikurinn verður í beinni útsendingu á 433.is.
Margir spá því að Afturelding berjist um efstu sæti deildarinnar en Magnús og félagar hafa verið virkir á leikmannamarkaðnum í aðdraganda móts og hópurinn er vel skipaður.
„Mér finnst hópurinn okkar sterkari og breiðari en í fyrra, við höfum verið að reyna að bæta okkur ár frá ári. Bæði eru strákarnir sem voru í liðinu reyndari og árinu eldri og þessar viðbætur eru góðar. Við höfum reynt að vanda okkur og við erum ánægðir með alla leikmennina sem hafa komið. Við erum ánægðir með hvernig það hefur tekist að styrkja hópinn, ég segi það fullum fetum að við höfum ekki verið með sterkari hóp þessi fjögur ár sem ég hef þjálfað liðið og jafnvel í sögu Aftureldingar. Það á eftir að koma í ljós í sumar, ég man ekki eftir betri Aftureldingar liðum.“
„Við setjum pressu á sjálfa okkur, við vorum í fimmta sæti lengst af í fyrra en runnum á rassinn sem var lélegt af okkur. Núna ætlum við að stíga skrefið til fulls og vera í efri hlutanum, við teljum okkur hafa liðið í það og stemminguna með. Þetta verður barátta, það er stutt á milli í þessari deild. Þetta er fjórða árið mitt í þessari deild og ég man ekki eftir jafnari deild.“
„Ef við mætum rétt stilltir þá eigum við að geta unnið öll þessi lið, við getum líka tapað fyrir öllum.“
Nýtt fyrirkomulag er í Lengjudeildinni í sumar en aðeins eitt lið fer beint upp úr deildinni, liðin í 2 til 5 sæti fara svo í úrslitakeppni. Aftureldingu er spáð sjötta sæti deildarinnar af fyrirliðum og forráðamönnum.
„Við yrðum ekki sáttir með að enda í sjötta sæti í þessu fyrirkomulagi, maður verður að reyna að stefna ofar. Ég hef bullandi trú á við getum gert þetta en þá þurfum við að tækla alla leiki af fagmennsku. Þetta verður jöfn deild og ég held að það ráðist ekki fyrr en í lokin hvernig þetta fer,“ segir Magnús.
Hann segir of mikla neikvæðni hafa einkennt umræðuna um nýtt fyrirkomulag og vill gefa því tækifæri.
„Mér finnst rosaleg neikvæðni í gangi og tal um að þetta sé ósanngjarnt, mér finnst þá á móti sanngjarnt að spila þetta einu sinni áður en menn úthúða því. Gefa þessu séns og sjá hvernig þetta kemur út, kannski verður þetta sanngjarnt og bilið frá öðru í fimmta sæti bara 1-2 stig. Kannski verður bilið meira, það sem ég sé eru leikirnir í lokin sem verða skemmtilegir. Undanúrslit heima og úti og úrslitaleikur, stærstu leikirnir sem margir hafa spilað á ferlinum. Þetta verða stærstu leikirnir varðandi áhorfendur, umgjörðin eftir því. Mér finnst allt í lagi að prófa þetta og sjá hvernig þetta kemur út.“
Leikur Aftureldingar og Þórs á morgun fer fram á Fram vellinum í Úlfarsársdal vegna viðgerða í Mosfellsbæ „Það væri möl ef við ætluðum að spila heima, við erum að fá nýjan glæsilegan völl með vökvunarkerfi. Það tekur smá tíma að ganga frá þessu;“ segir Magnús
„Við tökum þessu, við spiluðum æfingaleik gegn Ægi um daginn og æfum þarna í kvöld. Það er stutt, þetta er nánast í Mosfellsbæ. Ég efast ekki um að fólk mæti á völlinn þó þetta sé þarna.“
Eins og á síðasta ári verður Afturelding með eina flottustu umgjörðina á landinu og viðburðir verða á hverjum einasta heimaleik. „Það verða viðburðir, það er fótsnyrting á morgun. Þeir sem vilja láta snyrta fæturna og horfa á fótbolta á meðan mæta á morgun,“ segir Magnús léttur.
Hlaðvarpsþáttinn má heyra í heild á Spotify og í öllum helstu hlaðvarpsveitum.