Pétur Þór Halldórsson forstjóri fyrirtækisins S4S kallar eftir því í pistli á Facebook-síðu sinni í dag að fyrirtækið fái leyfi til að breyta opnunartíma verslana sinna í Kringlunni og Smáralind. S4S rekur m.a. skóverslanirnar Steinar Waage, Kaupfélagið, Ecco, Skechers, Toppskóinn og Air auk verslana Ellingsen í Reykjavík og á Akureyri.
Pétur telur raunar að breytt samfélag kalli á breyttan opnunartíma verslana almennt.
Pétur vill að fyrirtækið fái að opna verslanir sínar í Kringlunni og Smáralind klukkan 10 á virkum dögum og loka þeim klukkan 18. Almennur opnunartími Kringlunnar er frá klukkan 10-18:30 á virkum dögum en almennur opnunartími Smáralindar á virkum dögum er frá klukkan 11-19.
Í samtali við DV segir Pétur að áður hafi tekist að ná fram styttri opnunartíma í Kringlunni. Meðal annars hafi lengri opnunartími á fimmtudögum verið lagður af sem fáir hafi gert miklar athugasemdir við:
„Það mundi enginn eftir því viku seinna.“
Pétur segir, í pistlinum, að þær verslanir S4S sem ekki eru staðsettar í verslanamiðstöðvunum séu nú þegar opnar frá 10-18 á virkum dögum.
Stytting framhaldsskólanáms er að mati Péturs ein af ástæðunum sem kallar á þessar breytingar. Á Facebook segir hann:
„Framhaldsskólinn er orðinn 3 ár en áður hjálpuðu framhaldsskólanemar okkur mikið á þessum tímum seinni partinn og svo um helgar. Framhaldsskólafólk hefur alveg nóg að gera í skólanum og er því minna að vinna en áður.“
Því næst nefnir Pétur að tilkoma netverslana kalli einnig á þessar breytingar sem og stytting vinnuvikunnar:
„Margir viðskiptavinir skoða allt á netinu áður en þeir fara af stað til að versla og eru vel undirbúnir og við teljum að það muni bara aukast. Stytting vinnuvikunnar hefur einnig áhrif sem og sveigjanlegt vinnuumhverfi. Fólk kemur fyrr í okkar verslanir til að versla en áður.“
Í samtalinu við DV segir Pétur að viðskiptavinir fari almennt ekki lengur milli verslana eins og áður fyrr. Þeir skoði úrvalið í netverslunum og séu búnir að ákveða sig áður en þeir komi í verslanir.
Mesti vandinn sem verslanir S4S, sem og aðrar verslanir, glíma við, að mati Péturs er aðallega mönnunarvandi. Í pistlinum skrifar hann:
„Okkar lang stærsta verkefni er að fá fólk til að vinna í verslun í dag. Það er opið til klukkan sjö á virkum dögum. Hver vill vinna í búð og vera kominn heim til fjölskyldunnar klukkan hálf átta á kvöldin? Enginn!…. Ný kynslóð á vinnumarkaðnum lifir ekki til að vinna – heldur vinnur til að lifa!“
Í samtalinu við DV sagði Pétur að verslanir fyrirtækisins sem og aðrar verslanir séu á vegferð sem staðið hafi í raun yfir í mörg ár. Það sé afar erfitt að fá starfsfólk sem sjái fyrir sér að starfa við verslun til lengri tíma. Starfsfólk hefði almennt ekki áhuga á námi sem tengist verslun.
Í samtalinu sagði Pétur einnig að mönnunarvandinn væri í raun svo mikill að það væri oft á tíðum erfitt að halda verslunum fyrirtækisins opnum.
Pétur tjáði DV að verslunargeirinn hefði í raun setið eftir við styttingu vinnuvikunnar. Opnunartíminn sé sá sami en launakostnaður verslana orðið hærri vegna þess að starfsfólk fari fyrr á daginn yfir á yfirvinnutaxta. Frítími hafi aukist hjá mörgum starfsstéttum en ekki verslunarfólki.
Pétur sagði við DV að það væri almennt ekki rétt sem heyrðist í almennri umræðu að opnunartími verslana væri almennt langur í nágrannalöndum Íslands. Þróunin þar hefði verið í sams konar átt og hann væri að kalla eftir.
Í lok pistilsins á Facebook spáir Pétur því að í framtíðinni verði verslanir opnar almennt á milli 9-17 á virkum dögum og jafnvel lokaðar á sunnudögum.