fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Segir Vítalíu vera starfsmann Lyfju sem fletti upp lyfseðlum þjóðþekktra í Lyfjagátt og hefur verið kærð til lögreglu

Ritstjórn DV
Mánudaginn 15. maí 2023 09:43

Vítalía Lazareva Mynd: Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vítalía Lazareva er sá fyrrum starfsmaður Lyfju sem kærður hefur verið til lögreglu fyrir tilefnislausar uppflettingar í Lyfjagagnagrunni. Þetta fullyrðir Stefán Einar Stefánsson, fyrrum fréttastjóri viðskiptadeildar Morgunblaðsins, í hlaðvarpinu Þjóðmálum, í umsjón Gísla Freys Valdórssonar, en þar var málið rætt í þaula.

„Ég hef persónulegar heimildir fyrir því að þetta mál tengist öðru stóru hápólitísku risa skandalsmáli á Íslandi og að þarna eigi í hlut starfsmaður Lyfju sem heitir Vítalía Lazareva og hún hafi verið þarna að valsa um þessi gögn og leita að upplýsingum um menn sem hún taldi sig eiga eitthvað sökótt við,“ segir Stefán Einar.

Um hafi verið að ræða þá einstaklinga sem tengist pottamálinu alræmda, Hreggvið Jónsson, Ara Edwald og Þórð Má Jóhannesson, en Stefán Einar segist hafa heimildir fyrir því að Vítalía hafi verið að fletta upp upplýsingum um mun fleiri einstaklinga, þar á meðal þingmenn. Segist hann hafa séð gögn um að upplýsingar um tiltekna einstaklinga hafi verið í dreifingu og þau hafi komið úr þessari átt.

Stefán Einar Stefánsson
Stefán Einar Stefánsson

Segir viðbrögð Lyfju hafa verið með ólíkindum

Undirstrikar Stefán Einar alvarleika málsins og boðar að hann ætli í dag að senda erindi á Landlæknisembættið og óska eftir upplýsingum um hvar og hvenær flett hafi verið upp í hans skrá í Lyfjagagnagrunni. Hann segir ótækt að hundruð einstaklinga geti haft aðgang að þessum upplýsingum.

Hann segir að viðbrögð Lyfju í málinu séu líka fréttnæm: „Þau eru með þessa stúlku sem er í kröppum dansi og hefur ábyggilega átt bágt í þessu máli. Ég hef fulla samúð með öllum þeim sem lentu í þessari hakkavél þó ég viti ekkert hver sannleikurinn í því máli er. Þegar hún verður uppvís að þessu innan fyrirtækisins þá sé henni ekki umsvifalaust sagt upp störfum er með hreinum ólíkindum. Þetta varðar umsvifalausri og tafarlausri uppsögn. Manneskja sem bregst trúnaði og misnotar jafn viðkvæm gögn og þarna er um að tefla á ekkert erindi innan þessa fyrirtækis,“ segir Stefán Einar.

Hann segist hafa heimildir fyrir því að Lyfja hafi látið duga að færa Vítalíu til í starfi og málið hafi ekki verið sent til lögreglu fyrr en tveimur árum eftir að það kom upp og þá í kjölfar fréttaflutnings af uppflettingunum.

Sendu tilhæfulausa uppflettingu til lögreglu í síðustu viku

Lyfja­gagna­grunn­ur, sem einnig nefnist lyfjagátt, er eðli málsins samkvæmt op­inn starfs­mönn­um apó­teka í land­inu til að að þeir geti af­greitt lyf­seðils­skyld lyf. Aft­ur á móti er sá hængur á að ekki hægt að sjá hvaða starfsmaður flett­ir upp í gátt­inni og auðvelt er að deila upp­lýs­ing­um þaðan til þriðja aðila. Aðeins er hægt að sjá í hvaða útibúi uppflettingin er gerð. Það er ólíkt öðrum sambærilegum gagnagrunnum sem meðhöndla viðkvæmar persónuupplýsingar eins og gagna­grunnur lög­regl­unn­ar og gagnagrunnur heil­brigðis­kerf­is­ins.

Morgunblaðið greindi frá því í apríl að blaðið hefði undir höndum gögn sem sýndu tilefnislausar uppflettingar þjóðþekktra einstaklinga í Lyfjagáttinni. Þá kom fram að Embætti landlæknis hafi borist ábendingar um að upplýsinga úr lyfjagátt hafi verið aflað að óþörfu og þeim dreift til þriðja aðila. Sömuleiðis staðfesti Rúna Hauks­dótt­ir Hvann­berg, for­stjóri Lyfja­stofn­un­ar, að stofn­un­inni hafi borist sam­bæri­leg­ar ábend­ing­ar.

Þá kom fram í annarri frétt Morgunblaðsins um málið að það væri á borði Persónuverndar og litið þar alvarlegum augum. Í síðustu viku var síðan greint frá því að Lyfja hefði sent tilhæfulausa uppflettingu fyrrum starfsmanns til lögreglu.

Vakti þjóðarathygli vegna pottamálsins

DV hafði samband við Vítalíu í lok síðustu viku vegna orðróms um að hún tengdist málinu. Hún vildi ekki tjá sig um málið og kannaðist ekki við að tengjast málinu né að hafa verið boðuð í skýrslutöku hjá lögreglu vegna þess.

Óhætt er að fullyrða að Vítalía hafi vakið þjóðarathygli þegar hún steig fram í hlaðvarpsþættinum Eigin konur og sakaði landsþekkta menn, Hreggvið Jónsson, Ara Edwald, Þórð Má Jóhannesson, Arnar Grant og Loga Bergmann Eiðsson, um kynferðisofbeldi. Úr varð eitt stærsta fréttamál síðasta árs sem hafði margvísleg áhrif um allt viðskiptalífið og á persónulega hagi hinna ásökuðu.

Þrír mannanna, Hreggviður, Ari og Þórður Már, kærðu Vítalíu til lögreglu fyrir tilraun til fjárkúgunar, hótanir og brot gegn friðhelgi einkalífs, en sjálf brást hún við með því að kæra meint brot þremenninganna gagnvart sér til lögreglu.

Í apríl var greint frá því að kæra Vítalíu á hendur þremenningunum hefði verið felld niður af héraðssaksóknara en Vítalía tók þá ávörðun að kæra þá ákvörðun embættisins til ríkissaksóknara þar sem það er statt núna.

Þá er kæra á hendur Vítalíu og Arnari Grant fyrir rangar sakargiftir og fjárkúgun enn á borði lögreglu en vænta má niðurstöðu um hvort ákært verði eða ekki í því máli á næstu dögum.

Hér má hlusta á umræddan þátt Þjóðmála

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“