Stefán Ingi Sigurðarson framherji Breiðabliks hefur verið magnaður í upphafi Bestu deildar karla og skorað sex mörk í fyrstu fimm leikjunum.
Stefán hefur byrjað tvo leiki en komið í þrígang inn sem varamaður. Stefán hefur skorað mark á 40,1 mínútna fresti.
Stefán verður í byrjunarliði Breiðabliks í kvöld þegar liðið heimsækir Fylki á Wurth vellinum.
Stefán skoraði gegn HK og Val eftir að hafa komið inn sem varamaður, í sínum fyrsta byrjunarliðsleik skoraði Stefán svo þrennu.
Stefán Ingi skoraði svo eitt mark í 0-2 sigri á Stjörnunni í Garðabæ. Stefán er markahæsti leikmaður deildarinnar en þetta er hans fyrsta heila tímabil í Breiðablik.
Hann hafði á undanförnum árum verið á láni hjá Grindavík, ÍBV og HK en hann skoraði 13 mörk í 10 leikjum í Lengjudeildinni fyrir HK á síðustu leiktíð.