West Ham er farið að undirbúa framtíðina án Declan Rice ef marka má enska miðla.
Fyrirliðinn hefur verið stórkostlegur fyrir liðið undanfarin ár en nú er útlit fyrir að stærra félag kaupi hann í sumar.
Arsenal er talið leiða kapphlaupið um hinn 24 ára gamla Rice en ljóst er að fleiri félög hafa áhuga. Má þar nefna Manchester United og Newcastle, sem á sand af seðlum.
Rice er metinn á um 70 milljónir punda. Samningur hans rennur út eftir næstu leiktíð.
Samkvæmt The Athletic er West Ham þegar farið að skoða arftaka Rice.
Er þar Matteo Guendouzi á blaði. Hann er sem stendur hjá Marseille.
Guendouzi var áður á mála hjá Arsenal og er því með reynslu úr ensku úrvalsdeildinni.
Frakkinn hefur heillað mikið hjá Marseille, þar sem hann er á sínu öðru tímabili.