Þann 4. maí síðastliðinn var maður sakfelldur í Héraðsdómi Reykjaness fyrir líkamsárás sem átti sér stað fyrir utan skemmtistað á Suðurnesjum í október árið 2021. Í nafnhreinsaðri ákæru er atvikinu lýst svo:
„fyrir stórfellda líkamsárás, með því að hafa aðfararnótt laugardagsins 23. október 2021, fyrir utan skemmtistaðinn […], slegið A, kt. […], í höfuðið með krepptum hnefa þannig að hann féll aftur fyrir sig og skall með höfuðið í götuna, og hlaut við það alvarlegan höfuðáverka, höfuðkúpubrot, innanbastablæðingu yfir öllu vinstra heilahveli og innanskúmsblæðingu þar innundir, miðlínufærslu á heila og gríðarlega mikla bólgu í heilanum, og alvarlegar og varanlegar afleiðingar eftir heilaáverkann, sem fela í sér hugræna skerðingu, hafa áhrif á vitræna getu, skerðingu á athygli, minni og málfærni, veikleika í stýrifærni og erfiðleika með einbeitingu.“
Lögregla fékk tilkynningu um að maður lægi meðvitundarlaus á gangstéttinni fyrir utan skemmtistaðinn. Árásarmaðurinn var á vettvangi og var hann handtekinn. Var hann tekinn til yfirheyrslu og lýsti því að hann þekkti brotaþolann lítillega en sá hefði verið mjög árásargjarn og æstur. „Eftir lokun skemmtistaðarins hafi fjölmargir gestir staðarins verið samankomnir þar fyrir utan, þar á meðal brotaþoli, sem hafi ýtt við mörgum sem þar voru. Ákærði kvaðst hafa beðið brotaþola um að láta af háttsemi sinni. Í kjölfarið hafi risið ágreiningur þeirra á milli sem hafi endað með því að ákærði sló brotaþola með krepptum hnefa hægri handar undir hökuna með þeim afleiðingum að hann féll aftur fyrir sig.“
Árásarmaðurinn játaði brot sitt fyrir dómi skýlaust. Lögmaður hans benti á að þetta eina högg sem hann gaf brotaþolanum hefði haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar sem væru í sjálfu sér óhappatilvik.
Maðurinn var dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða brotaþolanum tvær milljónir króna í miskabætur.