KR hefur farið skelfilega af stað í Bestu deild karla. Staða þjálfarans, Rúnars Kristinssonar, er mikið á milli tannanna á fólki. Formaðurinn vill hins vegar ekki tjá sig um hana.
Stórveldið úr Vesturbænum er aðeins með 4 stig eftir fyrstu sex leiki sína í deildinni. Í gær tapaði liðið 5-0 fyrir Val. Það gæti farið svo að liðið verði í fallsæti þegar þessari umferð lýkur í kvöld með fjórum leikjum.
Stöðu Rúnars er því velt upp.
Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, vildi hins vegar ekki tjá sig um stöðu Rúnars er 433.is leitaði eftir því nú í morgunsárið.
Rúnar hefur þjálfað KR síðan 2017, en þar áður var hann með liðið frá 2010 til 2014.
Hefur hann náð frábærum árangri í Vesturbænum, orðið Íslandsmeistari þrisvar og bikarmeistari jafnoft á tíma sínum sem þjálfari.
Undanfarið hefur hins vegar farið að halla undan fæti og er byrjunin á þessari leiktíð, sem fyrr segir, alls ekki nógu góð.