Guðni Ágústsson, fyrrum alþingismaður og ráðherra, er allt annað en sáttur við suma verslunarmenn sem hafa það í hyggju að flytja inn erlent lambakjöt. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag kemur fram að Guðni telji gjörninginn siðlausan og hvetur Svandísi Svavarsdóttur, matvælaráðherra, til þess að slá á fingur þeirra sem eru í þessum hugleiðingum.
„Um nokkra hríð hafa sauðfjárbændur átt erfitt og verið illa settir, þeir framleiða besta lambakjöt í heimi en hafa búið við afurðaverð sem er til skammar. Og enn harðnar í ári, en riðan, sá sári sjúkdómur sem barst hingað fyrir einum 170 árum, skýtur upp kollinum. Nægt magn er til af lambakjöti fram á mitt sumar þegar sumarslátrun getur hafist. Samt sem áður ætla hinir miskunnarlausu
bissnessmenn að flytja inn lambakjöt í tonnavís eða sækjast eftir því,“ skrifar Guðni.
Hann segir verslunarmennina hafa verið að þreifa fyrir sér og kanna hversu hart sé hægt að ganga að íslenska lambinu og bændum.
„Sem betur fer eru siðvandir mennenn á meðal innflytjenda sem vita að þetta er löglegt en siðlaust,“ skrifar Guðni og hvetur alla til þess að standa með íslenskum bændum.
„Í fyrsta lagi taldi ég víst að flestir þeir sem þjóna bæði innlendum og erlendum ferðamönnum vissu að óskarétturinn er íslenskt lambakjöt. Í öðru lagi er ég að sjá illa merkt innflutt lambakjöt í kjötborðum og sagt er að það sé í mötuneytum og hótelum. Merkingar eru afar ógreinilegar. Græðgin er komin inn á markaðinn eins og þjófur um nótt,“ skrifar Guðni.
Hann segist hafa talið að eitthvað væri heilagt í íslensku samfélagi sem að græðgin veigraði sér við að slátra. Bendir hann á að ef einhver hefði nefnt að flytja inn lambakjöt fyrir áratug hefði viðkomandi verið talinn galinn.
„Von mín er fyrst og fremst sú að matvælaráðherra slái á fingur innflytjenda. Enn fremur er von mín sú að fólkið í landinu hafni þessari fífldirfsku græðginnar og standi með okkar sauðfjárbændum. Skýlaus krafa skal sett hér fram um merkingar á kjötvörum. Grænmetisbændur auglýsa „þú veist hvaðan það kemur,“ og fánarönd prýðir umbúðirnar. Ég skora á forystu sauðfjárbænda að ganga á fund innflytjenda og verslana og ræða málin. Ég skora á íslenska bændur að taka upp merkingar garðyrkjunnar, bæði í kjöti og mjólk,“ skrifar Guðni.