Ína Berglind Guðmundsdóttir vann Söngkeppni Samfés,sem fram fór í gær, með frumsamið lag Tilgangslausar setningar. Ína Berglind kemur úr félagsmiðstöðinni Nýjung á Egilsstöðum.
Í öðru sæti var Arnbjörg Hjartardóttir úr félagsmiðstöðinni Boran með lagið Við tvö, sem einnig var frumsamið. Í þriðja sæti var hljómsveitin Slysh úr félagsmiðstöðinni Skjálftaskjól með lagið Home Sweet Home.
Dómnefndina skipaði Þórdís Björk Þorfinnsdóttir leik- og söngkona, og tónlistarfólkið Júlí Heiðar Halldórsson, Guðlaug Sóley Höskuldsdóttir (Gugusar) og Klara Ósk Elíasdóttir.
Samfestingurinn, tveggja daga hátíð Samfés – Landssamtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi, fór fram nú um helgina í Laugardalshöllinni. Um 7.500 ungmenni úr félagsmiðstöðvum alls staðar á landinu sóttu hátíðina. Á föstudag var haldið ball og í gær var söngkeppnin.