Það vakti nokkra athygli í gær þegar Valur lék gegn Fylki í Bestu deild karla. Liðið vann sannfærandi sigur en Valur lék í bláum og hvítum treyjum en það hefur ekki sést um langt skeið.
Valsarar útskýra litina í treyjunni á Facebook síðu sinni þar sem sagt er frá því að svona hafi búningarnir litið út þegar félagið var stofnað.
Knattspyrnufélagið Valur var stofnað 11. maí 1911. „Fyrsti búningur félagsins var blár og hvítur eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Búningnum var síðan breytt árið 1920 og varð þá grænn. Flest lið í dag þurfa að hafa aðgang að þremur mismunandi treyjum vegna þátttöku í evrópukeppni,“ segir á Facebook síðu Vals.
„ Við hönnun á búningum fyrir þetta tímabil var ákveðið að sýna upprunanum virðingu og hönnuð var treyja í sömu litum og fyrsta treyja Vals.“
Treyja Vals hefur svo um langt skeið verið rauð og er þannig í dag.