Manchester United goðsögnin Gary Neville lætur Todd Boehly, einn eiganda Chelsea, fá það óþvegið í hlaðvarpi sínu.
Chelsea hefur verið í algjöru rugli á leiktíðinni og er fyrir neðan miðja deild þegar lítið er eftir af ensku úrvalsdeildinni.
Frá því Boehly fékk lyklana hefur félagið eytt 600 milljónum punda í nýja leikmenn. Lítið hefur hins vegar gengið upp innan vallar.
Neville var sérstaklega viðboðið að sjá frammistöðu Chelsea í 3-1 tapi gegn Arsenal í vikunni.
„Ég hef aldrei séð lið sem er svo gott á pappír spila svona illa. Þetta var skammarlegur fyrri hálfleikur. Aumkunarverður,“ segir Neville.
„Þarna voru heimsmeistarar, landsliðsmenn, svo dýrir leikmenn að ég trúi því ekki. Frank Lampard hlýtur að hugsa það sama.“
Svo sneri Neville sér að Boehly. „Þetta byrjar á toppnum. Þetta hefur verið algjör óreiða frá degi eitt. Boehly hefur staðið sig hræðilega hingað til og misskilið deildina en ég er viss um að hann geti lært fljótt.
Það sem hefur gerst á þessari leiktíð er allt á honum. Hann þurfti að halda knattspyrnudeildinni á sínum stað. Hann er ekki þar. Þú er eigandi, ekki leikmaður eða þjálfari. Þú hefur enga reynslu af þessari deild þannig vertu á þínum stað og leyfðu öðrum sem hafa rekið félagið svo vel í tíu ár að gera það.“
Neville bendir á að Boehly hafi breytt miklu á bak við tjöldin hjá Chelsea og segir það ekki hafa verið það rétta í stöðunni.
„Petr Cech fór, Marina Granovskaia fór, Thoamas Tuchel var látinn fara eftir nokkra leiki. Allt í einu fóru þeir að gefa 22 ára leikmönnum átta ára samninga. Þegar þú rekur vallarstarfsmenn, sjúkraþjálfara, íþróttafræðinga, stjórnarmenn, þjálfara ertu að henda þeim undir vagninn og segja að þetta sé þeim að kenna en ekki þér.
Chelsea var vel rekið félag. Þetta er það sem Boehly hefur nú búið til. Það er eins og hann sé að spila Football Manager. Þetta hefur verið hrein skelfing.“
Þrátt fyrir skelfilegt gengi á leiktíðinni telur Neville hins vegar að Chelsea geti hafnað í efstu þremur sætum ensku úrvalsdeildarinnar á næstu leiktíð.
„Ég held að einhver gæti mótað þá í gott lið sem berst um topp fjóra og titla.“