Dimitar Berbatov sagði á dögunum að hann hafi aðeins einu sinni á ferlinum skipt um treyju við leikmann eftir leik.
Búlgarski framherjinn er þekktastur fyrir tíma sinn með Manchester United. Hann fór þangað eftir að hafa heillað með Tottenham.
Undir stjórn Sir Alex Ferguson hjá United vann Berbatov tvo úrvalsdeildartitla, deildabikarinn og heimsmeistaratitil félagsliða.
Sem fyrr segir skipti Berbatov aldrei um treyjur við leikmenn. Hann gerði þó eina undantekningu er hann var ungur á mála hjá Bayer Leverkusen.
„Ég skipti aldrei við leikmenn um treyju eftir leiki. Mér var alveg sama við hvern ég var að spila. Ég ber virðingu fyrir öllum en ég var einbeittari á að sigra,“ sagði Berbatov í nýlegu viðtali.
„Það var samt einn og einn sem mann langaði að spyrja um treyjuna hjá. Ronaldo (sá brasilíski) var einn af þeim. Hann var ótrúlegur. Við vitum það. Ég spilaði á Barbabeu með Leverkusen. Ég var mjög feiminn þá en mig langaði í treyjuna. Við gerðum 1-1 jafntefli og ég skoraði.
Ég kunni ekki við að spyrja hann. Ég var of feiminn. Ég bað því brasilískan liðsfélaga minn um að spyrja hann eftir leik. Fimm mínútum síðar, þar sem ég sat og bað um að þetta myndi hafast, mætti hann með treyjuna sem mig langaði í.“