Karlmaðurinn sem lést eftir hnífsstunguárás í Hafnarfirði fimmtudaginn 20. apríl síðastliðinn hét Barlomiej Kamil Bielenda. Hann var 27 ára og lætur eftir sig tveggja ára gamla dóttur. Vísir greindi fyrst frá en þar kemur fram að bænastund verði í Fossvogskirkju síðdegis í dag.
Kristófer Gajowski, fulltrúi fjölskyldunnar, þakkar þann hlýhug sem fjölskylda og vinir Barlomiej hafa fundið fyrir í kjölfar harmleiksins.
Til stendur að flytja jarðneskar leifar Barlomiej til Póllands en mikill kostnaður sé við útfarir eins og fólk viti en þökk sé framlagi fólks hafi fjölskyldan ekki þurft að koma að þeim kostnaði.
Þá var stofnaður framtíðarreikningur fyrir tveggja ára dóttur mannsins. Kristófer þakkar allan þann stuðning sem sýndur hefur verið fjölskyldunni.
Þrír einstaklingar eru enn í haldi lögreglu vegna málsins. Átján ára piltur sætir gæsluvarðhaldi og þá eru tveir undir átján ára vistaðir í úrræði á vegum barnayfirvalda.