Tveimur leikjum er nýlokið í Bestu deild karla.
Það var markaleikur á Akureyri þegar KA tók á móti FH. Það var hins vegar aðeins eitt mark skorað í fyrri hálfleik og það í blálok hans. Seint í uppbótartíma kom Daníel Hafsteinsson heimamönnum yfir með skallamarki. Var það nokkuð gegn gangi leiksins.
KA kom frábærlega inn í seinni hálfleikinn og tvöfaldaði forskot sitt á 50. mínútu. Hallgrímur Mar Steingrímsson renndi boltanum þá á Pætur Petersen sem skoraði. Önnur stoðsending Hallgríms í leiknum.
Fjörið hélt áfram og tæpum tíu mínútum síðar kom Hörður Ingi Gunnarsson Hafnfirðingum inn í leikinn á ný. Staðan 2-1.
Leikurinn róaðist aðeins þar til Sveinn Margeir Hauksson tvöfaldaði forystu KA á ný. Nokkrum mínútum síðar fékk FH víti og Úlfur Ágúst Björnsson skoraði.
Elfar Árni Aðalsteinsson gerði hins vegar svo gott sem út um leikinn á 88. mínútu með flottu marki. Lokatölur 4-2.
KA er í þriðja sæti deildarinnar með 8 stig. FH er með stigi minna.
Fram tók á móti ÍBV í Úlfarsárdal. Sverrir Páll Hjaltested kom Eyjamönnum yfir með skalla á 30. mínútu leiksins.
Skömmu síðar fengu Framarar hins vegar víti þegar brotið var á Má Ægissyni innan teigs. Guðmundur Magnússon fór á punktinn og skoraði.
Meira var ekki skorað í fyrri hálfleik og staðan jöfn.
Um miðbik seinni hálfleiks komust heimamenn yfir. Þá átti Fred skot sem fór í Eið Aron Sigurbjörnsson og í netið.
Varamaðurinn Þórir Guðjónsson kom sterkur inn í leikinn fyrir Fram og innsiglaði hann 3-1 sigur á 80. mínútu.
Mikill æsingur myndaðist á milli leikmanna skömmu síðar og endaði hann með því að Halldór Jón Sigurður Þórðarson fékk rautt spjald.
Meira var ekki skorað og loktölur 3-1 fyrir Fram.
ÍBV er í sjöunda sæti með 6 stig eftir fimm leiki. Fram er með 5 stig.