Í mars og fram í byrjun apríl ár hvert fer fram hið svokallað marsbrjálæði (e. March Madness) í Bandaríkjunum. Þetta er óopinbert heiti á útsláttarkeppni um landsmeistaratitil háskólaliða í körfuknattleik.
Þau lið sem náð hafa bestum árangri í keppni hvert í sínum landshluta mætast þar til eitt lið stendur uppi sem sigurvegari. Alls komast 68 lið í lokakeppnina í bæði karla- og kvennaflokki og í ljósi fjölda leikja á stuttum tíma er keppnin kölluð brjálæði.
Í þessu brjálæði hafa oft komið fram persónur, sem vakið hafa athygli um öll Bandaríkin. Í keppni kvennaliða í ár var það ekki síst þjálfari sigurliðsins sem tekið var eftir. Ríkisháskóli Louisiana (e. Louisiana State University ) varð landsmeistari í kvennaflokki í fyrsta sinn undir stjórn hinnar litríku Kim Mulkey.
Kim Mulkey vakti þó ekki eingöngu athygli fyrir færni sína í körfuboltaþjálfun. Í hverjum leik var hún klædd með mun litríkari hætti en venjan hefur verið með körfuboltaþjálfara. Hún virtist hrifnust af bleikum klæðum og var til að mynda, í einum leik brjálæðisins, með stóran bleikan loðdúsk um hálsinn.
Líklega má þó segja að hún hafi geymt litríkasta klæðnaðinn þar til í sjálfum úrslitaleiknum. Þá klæddist hún dragt með tígrisdýraröndum.
Kim Mulkey er þó ekki óumdeild. Áður en hún tók við núverandi starfi í Louisiana þjálfaði hún kvennalið Baylor háskóla í Texas-ríki. Einn leikmanna liðsins sem lék undir hennar stjórn var Brittney Griner sem vakti heimsathygli eftir að hún sat í fangelsi í Rússlandi í tíu mánuði. Mulkey var spurð af fréttamönnum um mál Griner, á meðan fangelsisvist hennar stóð, en neitaði að svara.
Fyrir það var Mulkey gagnrýnd. Griner hefur ekki farið í grafgötur með að þeim hafi samið illa. Segir Griner að Mulkey hafi mislíkað að sú fyrrnefnda væri samkynhneigð og farið fram á að hún og aðrir hinsegin leikmenn myndu ekki opinbera kynhneigð sína. Var Mulkey sögð óttast að efnilegir leikmenn myndu annars forðast Baylor.
Kim Mulkey hefur hins vegar almennt látið gagnrýni í þessum dúr sem vind um eyru þjóta. Einn besti leikmaður liðs hennar í marsbrjálæðinu í ár, Angel Reese, lofaði þjálfarann litríka í viðtali við hlaðvarpið I Am Athlete. Reese, sem er dökk á hörund, sagði að hin hvíta Mulkey styddi vel við bakið á henni og öðrum hörundsdökkum leikmönnum liðsins.
„Hún þarf eiginlega að samþykkja að við erum eins og við erum og ég held að hún fagni því. Hún elskar okkur eins og við erum.“