„RÚV er eina ríkissjónvarpið á Norðurlöndum til að sýna ekki guðsþjónustur á sunnudögum og sú eina sem sýndi enga trúarlega dagskrá í sjónvarpi frá pálmasunnudegi til annars í páskum,“ segir Sigurvin Lárus Jónsson, prestur hjá Fríkirkjunni, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Sigurvin bendir á að ríkissjónvarpsstöðvar á öllum öðrum Norðurlöndum, sem og í Þýskalandi, flytji fjölbreytt trúarlegt efni og rekur mörg dæmi um það í grein sinni:
„DR starfrækir „DR kirken“ sem er með vikulegar sjónvarpsútsendingar frá guðsþjónustum dönsku kirkjunnar. Sænska sjónvarpið SVT flakkar á milli kirkna á sunnudagsmorgnum og hefur í upphafi stutta umfjöllun um hverja kirkju en þar er lögð áhersla á að sýna frá sem fjölbreyttustum söfnuðum. Norska ríkissjónvarpið NRK sendir út vikulegar guðsþjónustur frá kirkjum landsins og Finnar hafa útsendingar á YLE frá guðsþjónustum á sænsku og finnsku. Jafnvel Færeyingar sýna vikulegar sjónvarpsútsendingar frá guðsþjónustum í mismunandi kirkjum á KFV.“
Sigurvin segir varhugavert af hálfu RÚV að enduspegla ekki trúarmenningu þjóðarinnar í dagskrárvali sínu. Segir hann að þarna hafi RÚV mikilvægum skyldum að gegna:
„RÚV ber lögboðin skylda til að fjalla um og sýna menningu á Íslandi og það er varhugaverð ákvörðun að birta ekki trúarmenningu Íslendinga. Ísland hefur á skömmum tíma orðið að fjölmenningarsamfélagi, þar sem hlutfall Íslendinga sem eru af fyrstu eða annarri kynslóð innflytjenda er nú komið yfir 17% samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Aukin fjölmenning kallar á aukna fræðslu og aukinn sýnileika trúarhefða til að draga úr spennu í samskiptum menningarheima. Besta leiðin til að minnka spennu og auka virðingu í samfélaginu er að menningar- og trúarhefðir séu sem sýnilegastar. Ríkissjónvarpið hefur þar ríkari skyldum að gegna við að sinna miðlun á trúar- og menningararfi þjóðarinnar en einkareknir fjölmiðlar, sem þó hafa sinnt skyldum sínum.“