Hún var með 7.100 evrur á sér þegar hún var handtekin í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þann 8. mars síðastliðinn. Var hún að fara með flugi til Varsjár í Póllandi. Um er að ræða konu frá Albaníu, tæplega 47 ára gamla.
Eftir að konan hafði verið handtekin og peningarnir gerðir upptækir var hún ákærð fyrir peningaþvætti. Í ákærutexta segir að hún hafi „tekið við samtals 7.100 evrum frá óþekktum aðila eða aðilum en ákærðu gat ekki dulist að um væri að ræða ávinning af refsiverðum brotum. Ákærða var með reiðuféð í vörslu sinni, samtals 7100 evrur, sem lögregla fann og haldlagði við leit á ákærðu þegar hún var handtekin í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þann 8. mars 2023 á leið til Varsjá, Póllandi, með flugi nr. W61540. Með háttsemi sinni móttók ákærða ávinning af refsiverðum brotum, umbreytti og geymdi ávinninginn, flutti og leyndi ávinningnum og upplýsingum um uppruna, eðli, staðsetningu og ráðstöfun hans.“
Konan játaði brotið fyrir dómi og samþykkti upptökukröfu á fénu. Samkvæmt sakavottorði hefur hún ekki gerst sek áður um refsiverða háttsemi hér á landi. Var hún dæmd í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi, til upptöku á 7.100 evrum og til að greiða verjanda sínum 440 þúsund krónur í málsvarnarlaun.
Dóminn má lesa hér.