Einstaklingur á barnsaldri var handtekinn í gærkvöldi eftir að tilkynnt var um vopnað rán í verslun í austurborginni og líkamsárás í kjölfarið. Lögreglan fékk tilkynningu um ránið og voru gerendur nokkrir en þeir voru sagðir hafa ógnað starfsfólki með hnífum. Skömmu síðar var tilkynnt um líkamsárás við sömu verslun en þá hafði hópur ungmenna ráðist að einum. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Einn gerendanna var handtekinn á vettvangi en hann passaði við lýsingar af ráninu auk þess sem meint þýfi fannst á viðkomandi. Málið er í rannsókn en fram kemur að það sé einnig á borði barnaverndar sökum aldurs þolenda og gerenda.
Þá var lögreglan kölluð til þegar að kona var sögð hafa áreitt mann. Bæði voru þau ölvuð en lögreglu tókst að stilla til friðar og var ekki þörf á frekari aðkomu laganna varða. Svipað var uppi á teningnum á bráðamóttökunni í nótt en þá varð sjúklingur skyndilega æstur og var lögregla kölluð út. Sá róaðist þegar lögregla mætti á vettvang og var ekki þörf á frekara inngripi.