Gary Martin, leikmaður Selfoss, er eðlilega orðinn mjög spenntur fyrir því að hefja keppnistímabilið í Lengjudeildinni. Hans liði er spáð slæmu gengi en Gary hefur meiri trú á liðinu.
Lengjudeild karla rúllar af stað á föstudag. Selfoss tekur á móti Aftureldingu í fyrsta leik.
„Ég er mjög spenntur fyrir því að byrja. Ég er búinn að sjá nokkra mjög góða leiki í Bestu deildinni,“ segir Gary í ítarlegu viðtali við 433.is í dag.
Þjálfarar, fyrirliðar og formenn liða í deildinni spá Selfossi í 11. sæti og þar með falli úr Lengjudeildinni fyrir tímabil. Af hverju er það?
„Af því að við erum með mjög ungt lið. Þetta skiptir mig samt engu máli. Í fyrra var okkur spáð áttunda eða níunda sæti og eftir þrettán leiki vorum við á toppi deildarinnar.
Þá urðum við bensínlausir. Ég varð klárlega bensínlaus. Það tímabil tók mikið á mig,“ segir Gary, en Selfoss hafnaði að lokum í níunda sæti Lengjudeildarinnar.
Selfoss hefur misst reynslumikla menn í vetur og að sögn Gary spilar það inn í hvar liðinu er spáð.
„Við erum með unga leikmenn en góðan þjálfara og erum með gæði í hópnum. Reynsla skiptir miklu máli svo ég skil af hverju okkur er spáð þarna.“
Gary bendir á að Selfoss eigi frábæran markvörð í hinum 21 árs gamla Stefáni Þór Ágústssyni.
„Hann er einn sá besti á landinu að mínu mati og ég vona að hann fái þá virðingu sem hann á skilið,“ segir hann.
„Ég held að það verði í lagi með okkur. Við erum ekki með svo stóran hóp en við erum með ungan hóp. Vonandi meiðast ekki margir.“
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér að neðan.
433.is verður heimili Lengjudeildarinnar í sumar. Þar verður völdum leikjum lýst og markaþættir eftir hverja umferð.