Carlo Ancelotti segir það ekki rétt að hann hafi átt í viðræðum við brasilíska knattspyrnusambandið um að taka við karlalandsliðinu þar í landi.
Ítalinn er stjóri Real Madrid en umræðan hefur verið á þann veg að hann fari þaðan ef honum tekst ekki að vinna Meistaradeild Evrópu á ný. Liðið er svo gott sem búið að missa af Spánarmeistaratitlinum til Barcelona.
Ancelotti hefur sterklega verið orðaður við brasilíska landsliðið.
„Það eru falsfréttir á kreiki um að ég þurfi að fara að ákveða það hvort ég vilji taka við brasilíska landsliðinu eða ekki. Ég hef aldrei talað við þá,“ segir Ancelotti.
„Ég tjái mig ekki um framtíð mína. Það hef ég alltaf sagt.“
Real Madrid er komið í undanúrslit Meistaradeildarinnar og mætir þar Manchester City. Spænska stórveldið er ríkjandi meistari eftir sigur á Liverpool í úrslitaleik í fyrra.