Eins og iðulega um helgar þá var nóg af verkefnum hjá lögreglu í nótt. Eitt hið nöturlegasta var útkall vegna aðila í samkvæmi sem misst hafði meðvitund. Lögregla var send á vettvang ásamt sjúkrabifreið en á vettvangi var ölvun gesta mikil.
Segir í dagbók lögreglu að sumir gestanna virtust ekki sáttir með veru viðbragðsaðila á vettvangi og reyndu að hindra lögreglu og sjúkraflutningamenn við störf með því halda í sjúkrabörur, hindra aðgang að lyftu ásamt því að ausa fúkyrðum yfir lögreglumenn. Einn aðili hafði sig í mestu og var hann handtekinn og vistaður í fangaklefa. Fíkniefni fundust í fórum hans við komuna á lögreglustöð.
Þá var á annan tug ökumanna stöðvaðir vísvegar á höfuðborgarsvæðinu grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Nokkrir þessara ökumanna voru án gildra ökuréttinda.
Lögreglumenn við eftirlit sáu hvar ökumaður var upptekinn af farsíma sínum við akstur. Litlu mátti muna að ökumaðurinn hefði ekið á vegfaranda á rafmagnshlaupahjóli, ökumanninnum rétt tókst að nauðhemla. Ökumaðurinn viðurkenndi brot sitt og verður hann kærður fyrir að nota farsíma án handfráls búnaðar.
Nokkrir ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur. Sá sem að hraðast ók, ók á 109 km hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 60 km klst.