Karlmaður í Texas-fylki í Bandaríkjunum, Francisco Oropeza, drap fimm manns, þar á meðal átta ára gamlan dreng, eftir að hafa nágranni kvartaði yfir skothvellum í garði hans og að hávaðinn héldi vöku fyrir barni sínu.
Washington Post greinir frá þessu.
Í frétt miðilsins kemur fram ódæðið hafi átt sér stað á föstudaginn en í kjölfar kvörtunar nágrannans hafi Francisco brjálast og ráðist í kjölfarið inn í hús nágranna síns og hafið skothríð sem endaði með því að fimm manns lágu í valnum en tíu manns voru alls í húsinu. Francisco hafi síðan flúið af vettvangi og hefur víðtæk leit lögreglu staðið yfir síðan nærri bænum Cleveland, um 50 kílómetrum norðaustur af borginni Houston.
Það ærir óstöðugan að reyna að telja upp allan þann fjölda skotárása sem hafa átt sér stað undanfarna mánuði í Bandaríkjunum. Sú sem hér um ræðir er sú sjöunda í þessum mánuði þar sem vopnaður einstaklingur missir stjórn á sér og skýtur á samborgara sína eftir eðlileg hversdagsleg samskipti.
Alls létust þrjár konur í árásinni, einn fullorðinn karlmaður og átta ára drengur en öll voru þau skotin í höfuðið. Tvær af konunum fundust liggjandi ofan á ungu barni en þeim hafði tekist að hlífa barninu frá skotum byssumannsins.
Morðinginn Oropeza dundaði sér reglulega við að skjóta af byssum í garði sínum. Lögregluyfirvöld á svæðinu segja að til sé myndbandsupptaka af honum þar sem hann gengur vopnaður árásarrifli inn á heimili nágrannans eftir að hafa verið beðinn um að hafa hljótt svo barn nágrannans gæti sofið.