fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Hagur öfgaaflanna

Eyjan
Laugardaginn 29. apríl 2023 13:00

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Öfgaöflin í heimi hér hafa ávallt nærst á takmörkuðu aðgangi að upplýsingum. Það er þeim beinlínis fróun að fækka leiðum almennings til að verða sér úti um hlutlægt mat á því sem er að gerast í heimalandinu og veröld allri.

Þess vegna er það þeim mjög í hag að fækka frjálsum og óháðum fjölmiðlum og koma helst í veg fyrir rekstur þeirra allra, ýmist með andvaraleysi eða aðför að almennilegri blaðamennsku sem lætur ekki stjórnvöld eða embættismannakerfi segja sér fyrir verkum, ekki frekar en þá sem hægast geta stjórnað í krafti auðs og kaldrifjaðrar valdafíknar.

Þróttmiklir fjölmiðlar sem lúta skýrum ritstjórnarreglum og siðaskilmálum eiga víðast hvar undir högg að sækja um allan heim. Og kunna að liggja fyrir því nokkrar ástæður sem rekja má til breyttra aðstæðna í samfélagsháttum og stjórnarfari.

Hraðar tækniframfarir hafa gert það að verkum að offramboð upplýsinga af öllu tagi hellist yfir alþýðu manna á hverjum einasta degi í slíkum mæli að ógerningur er oft og tíðum að gera greinarmun á réttu og röngu, hálfsannleik eða haugalygi. En af því að glannalegustu fyrirsagnirnar eru oftast teknar, alveg burtséð frá áreiðanleika innihaldsins, er næsta auðvelt orðið að afvegaleiða allan almenning með innantómu þvaðri.

Á sama tíma eru hefðbundnir fjölmiðlar að gefa eftir, akkúrat þeir sem líta á það sem meginskyldu sína að þjónusta sérhverja lesendur, áhorfendur og hlustendur með staðfestum og ígrunduðum fréttum sem byggðar eru á traustum heimildum.

Fyrir vikið á sannleikurinn bágt. Hann gerir menn ekki lengur frjálsa, að minnsta kosti ekki í sama mæli og löngum áður. Hann má núna liggja á milli hluta.

Loks er frá því að segja að við lýði eru stjórnmálaflokkar, svo til í hverju þjóðríki á kringlu jarðar, sem stendur nú í ríkari mæli stuggur af áhrifamætti afhjúpandi og öflugrar rannsóknarblaðamennsku. Það er engan veginn í þágu þeirra að uppljóstrarar leiki lausum hala utan jafnt sem innan veggja reykfylltra bakherbergja. Hættan á að þeir fletti ofan af leyndinni sem liggur eins og lygavefur yfir spilltu hagsmunapoti er meiri en svo að við hana verði unað.

Þar af leiðandi er það beinlínis akkur þeirra stjórnmálaflokka sem hafa hvorki hag af beinu lýðræði eða opnu hagkerfi, ellegar því leiðarstefi mannúðar að samfélagið sé rekið á forsendum réttlætis, sanngirni og jöfnuðar, að fækka í hópi fjölmiðla sem þora að benda á keisarans nekt.

Og það er einmitt verið að gera nú um stundir með ofsóknum eða skeytingarleysi um það mikilvæga hlutverk sem fagmannlega reknir fjölmiðlar hafa í öllum þeim samfélögum sem vilja taka sig alvarlega.

Líka á Íslandi.

Eða halda eyjarskeggjar það virkilega að spillingin á Fróni – og það ógeðslega samfélag sem Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins lýsti forðum daga – megi koma almenningi fyrir sjónir?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar
EyjanFastir pennar
20.10.2024

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar
EyjanFastir pennar
12.10.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Vandi villta vinstrisins

Sigmundur Ernir skrifar: Vandi villta vinstrisins
EyjanFastir pennar
12.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut