David Arquette, fyrrum eiginmaður stórstjörnunnar Courtney Cox, hefur viðurkennt að hann hafi átt erfitt með frægð hennar og frama. Hann hafi þjáðst af minnimáttarkennd vegna þess að Cox var orðin ein þekktasta kona heims um tíma og rakaði inn fúlgum fjár á meðan ferill hans staðnaði.
Þetta kemur fram í nýlegu viðtali við Arquette á útvarpsstöðinni SiriusXM þar sem hann greinir frá ýmsum persónulegum málum.
„Ég var með hefðbundar hugmyndir um karlmennsku eins og þá að ég vildi vera sá sem að sæi um fjölskylduna mína og brauðfæddi hana,” sagði Arquette og bætti við að þessi afstaða hans hafi valdið allskonar sársauka og rifrildum í sambandi þeirra.
Arquette og Cox kynntust við tökur hryllingsmyndarinnar Scream árið 1996 og giftu sig þremur árum síðar. Þau eignuðust dótturina Coco árið 2004 en hjónabandi þeirra lauk með skilnaði árið 2012.
Parið náði þó að vinna úr ágreiningi sínum og eru góðir vinir í dag sem sjá saman um uppeldi dóttur sinnar. Arquette giftist Christina McLarty árið 2015 en Cox hefur verið í sambandi með Johnny McDaid, söngvara Snow Patrol, síðan 2013.