FH gagnrýnir KSÍ harðlega í kjölfar þess að ákvörðun var tekin um að spila leik liðsins gegn KR í Bestu deild karla á morgun.
Leikurinn átti upphaflega að fara fram í kvöld. Mikil óvissa var með vallaraðstæður og leikstað og var ákveðið að færa hann þar til 14 á morgun. KSÍ færði leikinn uppaflega á Wurth-völlinn í Árbæ eftir að FH-ingar höfðu lokað báðum grasvöllum sínum.
Lokuninni var hins vegar aflétt og verður því spilað á frjálsíþróttavelli FH, líkt og liðið gerði í leiknum gegn Stjörnunni í 2. umferð deildarinnar.
„Félagið vann að því fram á síðustu stundu að fresta þessum leik lengra inn í sumarið en þrátt fyrir að FH, KR, ÍTF og Stöð 2 Sport væru öll sammála um að það væri íslenskri knattspyrnu til heilla að gera það þá tók KSÍ einhliða ákvörðun um að leikurinn færi fram og settu hann fyrst á Wurth völlinn í Árbænum án þess að ráðfæra sig við okkur FH-inga!“ segir til að mynda í yfirlýsingu FH vegna málsins.
Yfirlýsingin í heild
Leikur okkar gegn KR-ingum verður spilaður á morgun kl. 14.00 á Frjálsíþróttavellinum í Kaplakrika.
Félagið vann að því fram á síðustu stundu að fresta þessum leik lengra inn í sumarið en þrátt fyrir að FH, KR, ÍTF og Stöð 2 Sport væru öll sammála um að það væri íslenskri knattspyrnu til heilla að gera það þá tók KSÍ einhliða ákvörðun um að leikurinn færi fram og settu hann fyrst á Wurth völlinn í Árbænum án þess að ráðfæra sig við okkur FH-inga!
Í ljósi þessarar ákvörðunar KSÍ, sem er íslenskri knattspyrnu ekki til heilla ákváðum við að gera það sem í okkar valdi stendur til að gera Frjálsíþróttavöllinn kláran fyrir morgundaginn. Það er að takast og því tökum við vel á móti KR-ingum þar á morgun, laugardag, kl. 14.00.
Það er ýmislegt sem þarf að gera og græja á svæðinu á morgun og því biðjum við alla þá sem vettlingi geta valdið að mæta upp á Krika um 11 leytið á morgun og hjálpa til við að gera þetta að enn einum ógleymanlegum degi á “Nývangi”!