Birgir Örn Guðjónsson lögreglumaður eða Biggi lögga tjáir sig um ópíóðafaraldurinn og segir hann liðin nokkur ár síðan hann viðraði áhyggjur sínar fyrst um málið.
„Þegar sterkir ópíóðar eins og Fentanyl færu hér í dreifingu með tilheyrandi ofskömmtunum og andlátum. Þetta er bylgja sem er löngu hafin í öðrum löndum og við máttum vel vita að hún kæmi hingað líka,“ segir Biggi.
Hann segist jafnframt hafa bent á það í nokkur ár að ungmenni, sér í lagi ungir drengir, hafi í sífellt auknum mæli farið að bera á sér hnífa og að áframhaldandi þróun í þá átt myndi leiða til hræðilegra og óafturkræfanlegra atburða.
Um stöðuna í dag segir Biggi: „Núna eru allir rosa hissa og skilja ekki hvernig við komumst í þessa stöðu og það er krafist viðbragða frá öllum áttum. Við höfðum tækifæri til að bregðast við en eins og ég hef svo oft kynnst þá er yfirleitt það helsta sem lagt er í forvarnir falleg orð og einstaka loforð um að reyna að gera eitthvað seinna. Þess vegna erum við alltaf eftir á að reyna að bregðast við því sem orðið er að vandamáli. Þurrka upp og færa til fötur þegar þakið er farið að leka í staðinn fyrir að laga þær skemmdir sem við vissum alveg af. Við vissum af þessum skemmdum í samfélaginu okkar og við vissum að það væri spáð rigningu. Það var bara ekki raunverulegur vilji til að bregðast við því. Sorglegur sannleikur.“
Samvinna er lykilatriði
Segir Biggi að samfélagið þurfi að vera viljugt og við vakandi ef við ætlum að geta stundað raunverulegar forvarnir til að takast á við það sem líklegt er að muni gerast.
„Annars eru það ekki forvarnir. Kerfið er bara risaskip sem tekur langan tíma að snúa á meðan samfélagið er spíttbátur. Það gengur ekki upp.
Við höfum fullt af lausnum, kunnáttu, reynslu og frábæru fólki sem getur gert svo margt. Samvinna er því lykilatriði. Það er ótrúlega þreytandi að vinna slíka vinnu í mörg ár og vera stanslaust að rekast á veggi sem þurfa ekki að vera þar. Við getum haldið endalausar flottar ráðstefnur og skrifað fagra sáttmála en á meðan það er enginn raunverulegur vilji til að vinna vinnuna þá er það allt til einskis. Forvarnir eru ekki orð sem taka á upp á þegar við heyrum slæmar fréttir eða fjaðrir í hatta embættismanna. Forvarnir er endalaus og breytileg vinna sem krefst sífelldrar greiningar og vilja til að framkvæma. Er sá vilji raunverulega til staðar? Maður spyr sig.“