Landsréttur hefur þyngt dóm yfir Magnúsi Scheving Thorsteinssyni vegna skattalagabrota og dæmt hann í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 47,8 milljón króna sektar.
Magnús var ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum árin 2016 og 2017. Var Magnús sagður hafa vantalið fram samtals 57,7 milljóna tekjur frá einkahlutafélaginu Pólstjörnunni en félagið er að fullu í hans eigu.
Sjá einnig: Skeiðað undan Skattinum – Forstjóri Íshesta ákærður fyrir skattsvik
Í ákærunni voru ársstekjur Magnúsar árið 2016 sagðar hafa numið um 56 milljónum króna, en ef marka má ákæruna vantaði þar inn rúmar fimm milljónir sem Magnús þáði frá Pólstjörnunni. Það sama var uppi á teningnum árið 2017, en á skattframtali þess árs er Magnús sagður hafa vantalið fram heilar 55.7 milljónir. Framtaldar tekjur það ár Magnúsar námu um 43 milljónum.
Samtals var Magnús því sagður hafa vantalið tekjur upp á 57.7 milljónir króna. Af þeim hefði Magnús átt að greiða rúmar 26 milljónir í tekjuskatt, eða eftir atvikum 11.5 milljónir í fjármagnstekjuskatt. Aðalkrafa Héraðssaksóknara var sú að Magnús yrði dæmdur fyrir að hafa svikist um greiðslur tekjuskatts, en varakrafa að hann hafi vangreitt fjármagnstekjuskatt.
Ingvi Tryggvason, héraðsdómari í málinu, komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri um stórfellt brot hjá Magnúsi að ræða. Hann hefði málsbætur í ljósi þess að hann hafði þegar gert upp endurákvörðuð gjöld skattstjóra vegna málsins. Var honum því eingöngu gert að greiða sekt fyrir að hafa ekki staðið skil á skattgreiðslunum á réttum tíma. Var því Magnúsi gert að greiða 47,8 milljón króna sekt og látið þar við sitja. Ríkissaksóknari var óánægður með þessa niðurstöðu og áfrýjaði málinu til Landsréttar og krafðist þess að Magnús yrði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd. Dómari Landsréttar var ósammála héraðsdómi og taldi ljóst að um verulegar fjárhæðir væri að ræða. Magnús hefði komið sér undan greiðslu skatts og gert það af ásetningi. Engu breytti þó hann hefði greitt skattinn eftir að skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn í málinu.
Magnús lét af störfum sem forstjóri Klakka eftir sjö ára starf árið 2018 og snéri sér að hestamennskunni. Hann er nú framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Íshesta auk þess sem hann situr í stjórn fjölmargra fyrirtækja.