Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur og fyrrverandi alþingismaður, bendir á að sparnaður Kópavogsbæjar af skertum opnunartíma Gerðarsafns nemi aðeins um 1,9 milljón. Til stendur að breyta opnunartíma með þeim hætti að safnið loki klukkustund fyrr á daginn og sé lokað á mánudögum. Hafi í skýrslu sem KPMG vann fyrir bæinn verið haldið fram að sparnaður af þessum aðgerðum næmi um 7,8 milljónum. Safnastjóri hafi þó bent á að raunin væri þó önnur þar sem ekki allir starfsmenn safnsins vinni í móttökunni og því væri sparnaðurinn fremur nær 1,9 milljón.
Margrét leggur á móti til að bæjarstjóri Kópavogs, Ásdís Kristjánsdóttir, verði ekki bæjarstjóri á mánudögum en reiknast Margréti til að bæjarstjórinn fái um 357 þúsund krónur á mánuði bara fyrir að vinna á mánudögum. Með þessu móti gæti bærinn sparað sér um 4,3 milljónir á ári sem væri þá meira heldur en raunverulegur sparnaður af skertri opnun Gerðarsafns.
Margrét skrifar á Facebook:
„Meðal hörmulegra tillagna bæjarstjóra Kópavogs um starfsemi menningarhúsanna í bænum er breyttur opnunartími Gerðarsafns. Samkvæmt skýrslu KPMG myndi það spara bænum kr. 7.794.642 á ári að hafa safnið lokað á mánudögum og einum klukkutíma skemur á daginn. Safnstjórinn hefur reyndar bent á að það sé alls ekki svo enda vinna ekki allir starfsmenn safnsins í móttökunni. Skertur opnunartími myndi bara spara kr. 1.944.941. Mér finnst samt að við ættlum að taka þessa hugmynd áfram. Ég legg til að bæjarstjóri Kópavogs sé ekki bæjarstjóri á mánudögum. Miðað við laun hennar fær hún kr. 357.142 á mánuði fyrir að vinna á mánudögum. Það er fljótt að telja. Á ársgrundvelli getum við Kópavogsbúar sparað kr. 4.285.714 krónur með því að vera bæjarstjóralaus á mánudögum. Ég er nokkuð viss um að það kæmi ekki illa niður á starfsemi bæjarins og væri jafnvel til bóta. Ef vel tekst til má reyna bæjarstjóraleysi aðra daga vikunnar líka.“
Eins og Eyjan greindi frá í júní á síðasta ári, segir í ráðningarsamningi Ásdísar að mánaðarleg laun hennar séu 2.38 milljónir. Til viðbótar fær hún greiddan útlagðan kostnað vegna notkunar á eigin bifreið í þágu starfsins sem nemur 158.750 kr. á mánuði. Mun Ásdís svo halda launum sínum í sex mánuði eftir að ráðningartíma (kjörtímabili) lýkur. Ásdís hefur einnig tekið sæti í stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og fær greidd laun fyrir þá setu. Raunverulega eru laun Ásdísar þó hærri en greinir í ráðningarsamningi, en laun hennar taka breytingum einu sinni á ári í samræmi við breytingar á launavísitölu, en launavísitala hefur hækkað um 62,6 stig síðan í júní í fyrra, eða um rúm 7 prósent.
Ásdís hefur legið undir töluverðri gagnrýni undanfarið eftir að tillögur hennar um breytingar í starfsemi menningarhúsa bæjarins voru samþykktar á bæjarstjórnafundi í vikunni. Þessar breytingar felast meðal annars í því að Héraðsskjalasafn Kópavogsbæjar verður lagt niður, starfsmönnum menningarhúsa verður fækkað og opnunartími Gerðarsafns verður skertur.
Margrét skrifaði einnig ítarlega færslu í gær á Facebook þar sem hún greinri frá viðbrögðum forstöðumanna menningarhúsa Kópavogsbæjar við skýrslu KPMG, en Margrét segist aldrei hafa lesið eins „illa skrifaða skýrslu“.