Héraðsdómur Vestfjarða hefur komist að þeirri niðurstöðu að verslun á Vestfjörðum sé bótaskyld vegna slyss sem kona, viðskiptavinur verslunarinnar, varð fyrir árið 2019.
Konan sagðist hafa staðið við afgreiðsluborð verslunarinnar þar sem hún lauk viðskiptum sínum. Í kjölfarið sneri hún sér við og hugðist ganga að útidyrum verslunarinnar, en ekki fór betur en svo að hún rak sig í kassa sem var á gólfinu og hrasaði um hann.
Féll konan á snaga sem var festur á vegg og fékk hann í vinstra augað. Hlaut konan varanlegan skaða á auganu og var hún flutt með sjúkrabíl á sjúkrahús áður en hún var flutt með sjúkraflugi á bráðamóttöku Landspítalans.
Konan bar því við að rekja mætti slysið til aðgæsluleysis og vanrækslu starfsmanna. Stefndi hún bæði versluninni og félaginu sem á húsnæði verslunarinnar vegna þeirra þeirra „hættulegu aðstæðna“ sem voru fyrir hendi í fasteigninni þegar slysið varð. Tekið er fram í dómnum að sami eigandi sé að fasteigninni og umræddri verslun.
Stefndu í málinu kröfðust sýknu, meðal annars á grundvelli þess að staðsetning kassans hafi blasað við og verið augljósa öllum þeim sem gengu um verslunina.
Umræddum kassa hafi verið ýtt að útvegg til að gönguleið yrði greið frá búðarborðinu. Staðsetning kassans hafi því ekki verið sérstaklega hættuleg. Þá hafi starfsmaður vakið athygli konunnar á staðsetningu kassans með því að ýta honum til fyrir framan hana. Konan hafi gengið á kassann án þess að líta fram fyrir sig og hafi því aðgæsluleysi hennar verið meginorsök slyssins.
Dómurinn tók ekki undir þetta og sagði í niðurstöðu sinni að aðgæsluleysi starfsmanna verslunarinnar hafi verið um að kenna sem konan gæti ekki tekið ábyrgð á. Var það því niðurstaða dómsins að viðurkenna bótaskyldu verslunarinnar. Þá var ekki fallist á það sjónarmið að konan hafi sýnt af sér aðgæsluleysi sem metið yrði henni til eigin sakar í málinu.