„Það sem mér fannst erfiðast var óvissan um framhaldið. Ég hélt að það myndi hægja á mér og stoppa mig að einhverju leyti. Ég sá ekki þá hversu mikil gjöf þetta var og hversu mikið ég myndi þroskast og eflast við það að eignast barn. Við vorum ein af þessum heppnu sem eignuðumst „covid-barn“ og ég var hrædd um að við værum ekki alveg tilbúin í þetta mikla og tryllta ferðalag,“ segir Fríða um þennan tíma, sem var hrædd við breytingarnar sem myndu fylgja, og ósátt við morgunógleði og fleiri fylgifiska meðgöngunnar.
Fríða segist hafa verið lengi að taka meðgönguna í sátt, en að hún hafi upplifað alls konar tilfinningar – eins og svolítið stjórnleysi á líkamanum og getunni til að halda áfram áður uppteknum hætti. Á sama tíma var hún þakklát fyrir barnið sem óx innra með henni og fannst henni hún því ekki getað talað um erfiðu tilfinningarnar.
Margir foreldrar tengja við þessar tilfinningar og er það eðlilegt að upplifa allskonar – að eiga góða og slæma daga – enda getur meðganga, fæðing og fyrstu ár í lífi barns verið ein rússíbanareið.
Þessi stórkostlega framandi og krefjandi tími skilaði Fríðu ekki einungis heilbrigðu barni heldur einnig sex lögum um þetta tímabil. Lögin gefur hún nú út á stuttskífu, sem ber nafnið „Vaxtarverkir“.
„Vaxtarverkir“ er fyrsta breiðskífa söngkonunnar Fríðu Hansen, sem er aðal laga- og textahöfundur plötunnar. Á plötunni tekst hún á við þá óttablöndnu hamingjutilfinningu að mæta foreldrahlutverkinu í fyrsta sinn.
Sögurnar í lögunum fylgja ungri móður fyrstu skrefin. Gegnum tónlistina upplifir hún sorgina yfir því sem áður var ásamt skilyrðislausri ást á því sem verður. Í lögunum blundar frumkraftur fæðingarinnar í bland við ljúfsárar stundir fyrstu áranna með nýjum einstaklingi. Að vaxa úr grasi er ekki sársaukalaust en nýir fætur geta fetað gömul spor.”
Nú rúmum tveimur árum seinna horfir Fríða til baka með gleði í hjarta þar sem hún segir lífið hafi orðið enn betra eftir að sonur þeirra kom í heiminn. Fríða fór að forgangsraða tímanum sínum betur og reynir að nýta þann tíma sem hún hefur til þess að koma því sem hún vill í verk. Á meðgöngunni efldist hún í trúnni á tónlistina sína og hóf að gefa út frumsamið efni, og lögðu þau fjölskyldan svo land undir fót þegar sonur þeirra var aðeins 6 mánaða og eyddu nokkrum mánuðum í reiðkennslu og annarri hestatengdri vinnu í Evrópu. Í kjölfarið hefur Fríða gefið út enn meiri tónlist, haldið tónleika og unnið með ýmsu frábæru listafólki – og haldið áfram að temja og þjálfa bæði hesta og reiðmenn – og má því segja að barneignin hafi frekar ýtt henni í að elta drauma sína sem sést vel í nýju plötunni hennar sem má hlusta á hér.
Með henni að plötunni unnu þeir Vignir Snær Vigfússon, sem sá um upptöku og hljóðblöndun, gítar- og bassaleik ásamt því að spila inn syntha, Benedikt Brynleifsson sem spilaði á trommur og Stefán Þorleifsson sem spilaði á píanó og hljómborð. Sigurdór Guðmundsson hljómjafnaði plötuna og Sam Berdah sá um vínylskurð. Vínylplatan var svo framleidd hjá RPM Records í Danmörku. Hún verður fáanleg á vel völdum sölustöðum í næstu viku.
Hægt er að fylgja Fríðu á samfélagsmiðlum hennar hér.