Þetta segir í nýlegu stöðumati breska varnarmálaráðuneytisins um gang stríðsins. Segir ráðuneytið að hernámsyfirvöld neyði næstum örugglega íbúana til að sætta sig við að þurfa að fá rússneskt vegabréf.
„Íbúar í Kherson hafa verið varaðir við að ef þeir hafa ekki tekið við rússnesku vegabréfi fyrir 1. júní 2023 verði þeir „fluttir á brott og fasteignir þeirra gerðar upptækar“, segir í stöðumati ráðuneytisins.
Segir ráðuneytið það vera mat sitt að þetta sé hluti af tilraunum Rússa til að „hraða aðlögun“ hernumdu svæðanna og séu vegabréf meðal þeirra verkfæra sem þeir nota. Það hafi þeir gert í Donetsk og Luhansk áður en þeir réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022.
„Rússar vilja líklega hraða aðlögun hernumdu svæðanna í Úkraínu að skrifræði Rússneska sambandsríkisins til að reyna að láta líta út fyrir að innrásin sé vel heppnuð, sérstaklega í aðdraganda forsetakosninganna 2024,“ segir í stöðumatinu.