Cole Prochaska hefur leyft fylgjendum sínum á samfélagsmiðlum að fylgjast með ótrúlegu ferðalagi sínu í átt að betri heilsu.
Á tveimur árum hefur Cole, sem er frá Suður-Karólínu í Bandaríkjunum, lést um 152 kíló. Segja má að hann sé óþekkjanlegur í dag miðað við myndir sem hann hefur birt af sér.
Á einni má til dæmis sjá hann beran að ofan og sagði Cole að það hafi ekki verið auðveld ákvörðun að birta þá mynd.
„En ég er kominn þetta langt og búinn að léttast um 152 kíló. Flestir höfðu ekki mikla trú á mér en ég hafði trú á mér,“ sagði hann í færslu á Twitter.
Óhætt er að segja að margir hafi hvatt Cole áfram til dáða og hrósað honum fyrir staðfestuna. „Þvílíkur stríðsmaður. Virðing,“ sagði einn.
Cole segist hafa ákveðið að gera eitthvað í sínum málum til að forðast það að fá sykursýki og deyja ungur. Hann byrjaði að stunda líkamsrækt af kappi, tók mataræðið í gegn og einsetti sér að ganga 10 þúsund skref á hverjum degi.
Vegna þeirrar miklu umframhúðar sem er á líkama hans segir hann það freistandi að leggjast undir hnífinn og stefnir hann á að gera það þegar fram líða stundir.