Hann brosti út að eyrum – skiljanlega kannski – þegar hann gekk út úr útibúi Chase-bankans í Kaliforníu í gær.
Edwin Castro, þrítugur Bandaríkjamaður, varð fyrir skemmstu margfaldur milljarðamæringur á einni nóttu þegar hann vann einn stærsta lottóvinning sögunnar.
Castro var með allar tölurnar réttar í Powerball-lottóinu í nóvember síðastliðnum og fékk í sinn hlut tvo milljarða Bandaríkjadala, 270 milljarða króna. Upphæðin lækkaði að vísu nokkuð eftir að hann ákvað að fá alla upphæðina greidda út í einu en hún var samt vel yfir hundrað milljarðar króna.
New York Post birti fyrstu myndirnar af kappanum í morgun en á þeim má sjá hann ganga út úr Chase-bankanum með þykkt peningaumslag. Öryggisverðir fylgdu honum hvert fótmál. Castro var klæddur í gráa Under Armour-íþróttapeysu og joggingbuxur.
Castro er þegar byrjaður að spreða vinningsfénu en hann er búinn að kaupa sér tvö glæsihús í Kaliforníu. Annars vegar er um að ræða risastóra villu í Hollywood Hills sem kostaði 25,5 milljónir dollara og hins vegar 4 milljóna dollara villu í Altadena með útsýni yfir San Gabriel-fjöll.
Castro er einmitt uppalinn í Altadena og bjó í lítilli tveggja herbergja íbúð þar þegar hann datt í lukkupottinn í nóvember síðastliðnum.