Valur er það félag sem borgar hæstu launin í íslenskum fótbolta. Þetta er meðal þess sem kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins en hún fjallar um skýrslu KSÍ og Deloitte um fjármál félaga á Íslandi.
Skýrslan verður kynnt formlega síðdegis í dag en Viðskiptablaðið hefur fengið hana í hendurnar.
Í frétt Viðskiptablaðsins kemur fram að íslensk knattspyrnufélög hafi á síðasta ári greitt 3,5 milljarð í laun og launatengd gjöld.
Breiðablik borgaði mest í laun eða hálfan milljarð. Af þessum 3,5 milljarði fór 1,7 milljarður í laun meistaraflokka.
Leikmenn Vals í meistaraflokki hafa það best miðað við skýrsluna en félagið greiddi meistaraflokkum sínum 209 milljónir í laun á síðasta ári. Er það 30 milljónu mmeira en Breiðablik borgaði.
Víkingur sem er svo eitt besta lið landsins borgaði 124 milljónir í laun til meistaraflokka og er því langt á eftir Blikum og Val. Víkingar eru í þriðja sæti yfir launagreiðslur til leikmanna.
Í skýrslunni kemur svo einnig fram að Íslensk knattspyrnufélög seldu 56 íslenska leikmenn erlendis fyrir samtals 837 milljónir króna á árunum 2019-2022.
Sóknarmenn kostuðu að meðaltali 18 milljónir, miðjumenn 17 milljónir, varnarmenn 12 milljónir og markmenn 2 milljónir en aðeins tveir markmenn voru seldir út á þessum tíma.
„Þessar tölur eru einungis fasta upphæðin sem greidd er fyrir leikmennina. Þarna á eftir að taka inn í myndina allar þær klásúlur um framtíðargreiðslur sem oftast eru í þessum samningum,“ segir Haukur Hinriksson, yfirlögfræðingur KSÍ við Viðskiptablaðið.