Morgunblaðið skýrir frá þessu og segir að meðal hinna ósáttu sé Bjarni Jónsson, formaður nefndarinnar og þingmaður Vinstri grænna. Í samtali við Morgunblaðið sagði hann að sérstök ástæða sé til að gefa sér nægan tíma til að fjalla um máli. „Þetta er mál af stærðargráðu sem þarf vandaða umfjöllun, mál sem vekur spurningar um stjórnarskrármálefni. Þess vegna skiptir miklu máli að leita umsagna víða og kalla fyrir nefndina alla þá gesti sem þurfa þykir, enda ekkert sem bendir til þess að eftir 30 ár liggi núna lífið við,“ sagði hann.
Bjarni hefur verið í Strassborg síðustu daga en á meðan á fjarveru hans hefur staðið er Njáll Trausti Friðbertsson, varaformaður nefndarinnar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagður hafa lagt áherslu á að koma sem mestu í verk.
Morgunblaðið hefur eftir þingmönnum að á nefndarfundi á mánudaginn hafi aðeins nokkrar umsagnir verið samþykktar og hafi þeir verið frá fremur einsleitum hópi.
Í gær var fundað með embættismönnum og var þá bætt verulega í og skipta umsagnarbeiðnir og fyrirhugaðar gestakomur til nefndarinnar nú tugum. Næsti fundur nefndarinnar er á morgun.
Morgunblaðið segir að skiptar skoðanir séu innan stjórnarliðsins um málið, jafnvel innan flokka.