Söngkonan Meghan Trainor deildi líklega meiri heldur en hlustendur höfðu áhuga á að heyra í hlaðvarpi sem hún og bróðir hennar halda úti. Hlaðvarpið nefnist Workin On It og á dögunum opnaði Meghan sig um erfiðleikana í svefnherbergi hennar og eiginmannsins, Daryl Sabara. Glamour greinir frá.
Sumir gætu talið að um svokallað lúxusvandamál væri að ræða, en málið liggur þannig að eiginmaður Meghan er svo vel að guði gerður að söngkonunni þykir eiginlega nóg um.
„Eiginmaður minn er stór strákur. Píkan mín er samt brotin. Ég er með píkukvíða,“ sagði söngkonan sem sagðist óska þess að maður hennar væri aðeins minni fyrir sunnan. Ekki hjálpar það svo til að Meghan hefur verið greind með ástand sem kallast vaginimus, en það veldur því að vöðvar í leggöngunum herpast ósjálfrátt sem gerir samfarir oft sársaukafullar. Meghan segir að áður en greiningin kom hafi hún staðið í þeirri trú að samfarir væru almennt sársaukafullar fyrir konur.
„Þetta er komið á þann stað að ég spyr – Er hann allur kominn inn? Og hann svarar – Nei bara kóngurinn. Og ég hugsa þá bara að ég geti ekki meira. Og ég veit ekki hvernig ég get lagað þetta. Á ég að gera teygjuæfingar? Ég vildi að ég gæti minnkað Daryl. Þetta er sko vont.“
Meghan segir að eftir samfarir geti hún varla gengið.
Söngkonan opnaði sig líka um kynlíf eftir barnsburð, en hún átti sitt fyrsta barn, Riley, árið 2021. Eftir fæðinguna óttaðist hún kynlíf og kærði sig ekki um að maður hennar leitaði á hana. Það hafi tekið langan tíma að geta einu sinni velt því fyrir sér að stunda kynlíf. Meghan er nú ólétt af sínu öðru barni, sem er drengur, og segist vera jákvæð gagnvart kynlífi í framtíðinni.
„Ég mun finna út úr þessu. Ég verð stjarna í svefnherberginu.“
Þetta fengu áhorfendur að vita og sömuleiðis þið lesendur.