Hrafnhildur Sigmarsdóttir, ráðgjafi hjá Stígamótum, ræðir um mál Frosta Logasonar og Eddu Falak og hvernig samfélagið brást við því þegar Edda gekkst við því að hafa orðið missaga um starfsreynslu sína. Veltir Hrafnhildur því fyrir sér hvers vegna samfélagið bregðist stundum við mistökum annarra með mildi en svo heift í öðrum tilvikum. Spyr hún hvort að samfélagið geti í raun talist siðað.
Frosti, stofnandi hlaðvarpsveitunnar Brotkast, birti í mars hlaðvarp þar sem hann sagðist vera búinn að „afhjúpa“ fjölmiðla- og baráttukonuna Eddu. Hann sagði hana hafa logið um starfsreynslu sína. Viku seinna gaf Heimildin út yfirlýsingu þar sem kom fram að Edda hafi „ekki lýst með réttum hætti stöðu sinni gagnvart tilteknum fyrirtækjum á sviði fjármála þegar hún bjó í Danmörku“ og „hún biðst velvirðingar á missögninni.“
Síðan þá hefur Edda hætt störfum hjá Heimildinni og gefið út yfirlýsingu þar sem hún sagðist hafa einfaldað frásögnina af ferli sínum til að hlífa sjálfri sér og þeim sem sýndu henni vanvirðingu.
„Í marsmánuði virtist viðbragðsvaki íslensku þjóðarinnar vera símtöl Frosta Logasonar hlaðvarpsstjórnanda til stórfyrirtækja í Danmörku til að geta opinberað meintan ótrúverðugleika konu sem veitti fyrrverandi kærustu hans rými til þess að ræða upplifun sína af ofbeldi af hans hálfu,“ segir Hrafnhildur í pistli á Heimildinni.
„Fréttir birtust og kaffærðu fjölmiðlum. Allir gáfu álit. Sérfræðingar og sjálfskipaðir sérfræðingar tóku til máls og margir voru sammála um að lygar eða missagnir væru svo samfélagslega óboðlegar að endurheimt mannorðs væri með öllu ómögulegt. Yfir nótt varð möguleg þensla sjálfsmyndar konu úti í bæ orðin að lægsta siðferðisþröskuldi Íslandssögunnar,“ segir hún og bætir við:
„Að setja mennskuna til hliðar og taka viðbjóðinn fram er val þegar kemur að öllum ummælum óháð rými.“
Hrafnhildur segir að undanfarin ár hefur hún verið að velta því fyrir sér hvort að við séum í raun siðað samfélag.
„Ég fór að velta fyrir mér manneskjulegum breyskleika sálarinnar og sjálfsmynd okkar út á við. Ef að lygar, missagnir, oftúlkanir, mistúlkanir eða rangtúlkanir snúast um þenslu sjálfsmyndar sem búin er alvarlegri áfallasögu, þá voru viðbrögðin engan veginn í samræmi við syndina. Oftast er þensla sjálfsmyndar ákveðið viðbragð til að mæta aðstöðubundnu getuleysi og byggt á ótta fremur en ófyrirgefanleg synd,“ segir Hrafnhildur og viðurkennir að hún hefur orðið sek um að þenja sig.
„Amma mín hefur þanið sig. Stjórnmálamennirnir okkar hafa þanið sig alla leið til Oxford og víðar. Allir hafa einhvern tímann þanið sig til að virka stærri í máli og mynd en þessi pistill er ekki um þenslu meðalmennskunnar.“
Hrafnhildur segir að hún hafi haft áhyggjur að umræðan um Eddu og Frosta myndi verða til þess að trúverðugleiki hennar og viðmælenda hennar yrði dreginn í efa.
„Ég var líka hrædd um að umræðan og aftakan myndi afvegaleiða okkur frá því sem raunverulega skiptir máli. Það taldi ég vera óboðlegt en hugsanlega óhjákvæmilegt hér á landi þar sem sífellt er verið að ergjast út í þessar kolklikkuðu kuntur og neita margreyndum, gagnreyndum og sannreyndum staðreyndum varðandi tölfræði og kynbundið ofbeldi í íslensku samfélagi,“ segir hún.
Hrafnhildur nefnir Lækna-Tómas í þessu samhengi, þegar hann var blekktur af ítalska lækninum Paola Macchiarini.
„Lækna-Tómas var í samvinnu við þennan mann og var í kjölfarið orðaður við vísindalegt misferli og slæma læknisfræði. Lækna-Tómas missti hins vegar engan trúverðugleika í augum almennings. Það var ekki búin til dúkka af honum og hún brennd á báli. Hann varð ekki samfélagslega skipaður talsmaður allra lækna á Íslandi og læknastéttin í heild sinni hlaut ekki skaða. Þrátt fyrir alvarleika afleiðinganna var hann einungis tímabundið efni fjölmiðlanna. Hann upplifði líf sitt ekki í hættu og gat eftir ár snúið aftur á vinnustað sinn […] Honum var hins vegar mætt með skilningi og samkennd samfélagsins. Í ljósi fjölmiðlaumfjöllunar og ummæla í athugasemdakerfi fréttaveitnanna síðastliðinn marsmánuð er auðséð að samkennd og skilningur er ekki ætlaður öllum þeim sem gott gera en tapa gát,“ segir hún.
Kolklikkaðar kuntur
„Á meðan æsifréttamennska og feðraveldið vill persónugera eina manneskju sem rödd baráttunnar til að auðveldara sé að skrásetja fall hennar þá neyðast kolklikkaðar kuntur af öllum kynjum til að halda áfram að tuða um tölfræði og skrifa og tala um kynbundið ofbeldi. Ísland er engin paradís þegar kemur að öryggi kvenna. Hvorki þeirra sem vilja hafa hátt eða þeirra sem vilja vera í friði,“ segir hún.
Hrafnhildur ræðir nánar um þöggun og nefnir nokkur dæmi, eins og kynferðisbrotamálið í Reykjadal og meint kynferðisafbrot Skeggja Ásbjarnarson, sem var kennari við Laugarnesskóla. Pistilinn má lesa í heild sinni hér.