Stefán Ólafsson, sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi, segir að launakostnaður á Íslandi sé undir meðaltali Evrópuríkja, þrátt fyrir að hér á landi sé gjarnan fullyrt að sá kostnaður sé með hæsta móti í heiminum.
Hann bendir á þetta í grein sem hann birti hjá Vísi í dag.
„Atvinnurekendur tala iðulega um að laun séu með hæsta móti á Íslandi, jafnvel þau hæstu í heimi. Fjölmiðlar þeirra bergmála þetta svo um allt land. Því trúa margir þessu. En þetta er ekki svona einfalt. Skoða þarf laun og launatengd gjöld saman, að teknu tilliti til mismunandi verðlags þjóða.“
Bendir Stefán á að verðlag hér á landi sé með því hæsta sem þekkist. Því fylgi óhjákvæmilega að hér séu hærri laun því verðlagi kalli hreinlega á það. Þegar framlag velferðarkerfisins bætist svo við og álagning skattkerfisins sé dregin frá siti ráðstöfunartekjur eftir.
„Þær eru ekki hæstar á Íslandi. Kaupmáttarleiðrétt meðallaun og ráðstöfunartekjur eru t.d. talsvert hærri í Sviss en á Íslandi, sem og í nokkrum öðrum Evrópulöndum.“
Svo einnig. mikilvægt að horfa til launakostnaðar fyrirtækja, en þar sé átt við samanlögð laun og launagjöld. Sá kostnaður sýni hvað vinnuaflið vegur í reikningum fyrirtækjanna.
Birtir Stefán töflu frá Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, sem sýnir að launakostnaður fyrirtækja á Íslandi sé ekki það hár og í raun sá minnist á öllum Norðurlöndunum og eins minni heldur en í löndum á borð við Bretland, Lúxemborg, Holland, Austurríki, Belgíu, Írlandi og Ítalíu.
„Laun eru í hærra lagi á Íslandi en launatengd gjöld fyrirtækja eru í lægra lagi. Samanlögð laun og launatengd gjöld (heildar launakostnaður fyrirtækja) hér á landi er hins vegar undir meðallagi þessara Evrópuþjóða, að teknu tillit til verðlags. Ísland er í fimmtánda sæti, en ekki í einu af efstu sætunum.“
Launakostnaður á hinum Norðurlöndum sé hærri. Það séu fátækari þjóðarinnar í Evrópu sem séu á svipuðum slóðum eða neðar en Ísland.
„Hvaða þýðingu hefur þetta?
Jú, þetta segir okkur að íslensk fyrirtæki búa við mjög hóflegar byrðar vegna vinnuaflskostnaðar. Þau ættu því auðveldlega að geta borið hærri laun eða hærri framlög til velferðarkerfisins til að bæta hag launafólks (m.a. í gengum launatengd gjöld atvinnurekenda)
Fyrirtækjum á Íslandi er þannig hlíft. Þeim er einnig hlíft með tiltölulega lágum tekjuskatti á hagnað fyrirtækja. Eigendum og stjórnendum fyrirtækja er þar að auki hlíft með óvenju lágum fjármagnstekjuskatti hér á landi.“
Það sé því innantómur boðskapur þegar atvinnurekendur hér á landi kvarti undan háum launum, sé heildarmyndin skoðuð. Því sé vissulega svigrúm til að bæta hag launafólks án þess að þá halli á fyrirtækin.