„Í dag eru margir sorgmæddir, margir að fylgja ungmennum sínum og ástvinum til grafar vegna þess faraldurs og þess ógnarástands sem hefur skapast í samfélaginu af völdum ópíóíða.“
Þetta sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í umræðum um störf þingsins á Alþingi í gær. Inga lýsti verulegum áhyggjum af stöðu mála.
„Það er sorglegt til þess að vita að þessi mörgu ótímabæru dauðsföll mætti koma í veg fyrir með lyfinu naloxone, með því að gefa það frjálst í lausasölu, lyfi sem er í formi nefúða sem í raun dregur úr eitrunaráhrifum,“ sagði Inga.
Hafrún Elísa Sigurðardóttir, teymisstýra skaðaminnkunarverkefnis Rauða krossins, sagði við Vísi í gær að starfsfólk Frú Ragnheiðar hefi orðið vart við aukningu á síðustu vikum og mánuðum þegar kemur að andlátum í kjölfar ofskömmtunar fíkniefna.
Nefndi hún einmitt lyfið naloxone í viðtalinu sem mikilvægt væri að tryggja aðgengi að. Víða um heim hefði aðgengi að lyfinu batnað til muna en hér á landi væri enn gerð krafa um að læknir skrifaði út lyfið á kennitölu einstaklings.
„Fólk ætti að geta orðið sér út um það alls staðar, rétt eins og með önnur lausasölulyf,“ sagði Hafrún.
Inga benti á að 1. Júlí í fyrra hafi lyfið verið sett í Frú Ragnheiði og Rauði krossinn og heilbrigðisstofnanir getað nýtt sér það þegar fólk er við dauðans dyr.
„Ég segi: Þetta er gríðarlega alvarlegt mál. Það er neyðarástand í samfélaginu. Ég held að ég sé búin að koma hundrað sinnum hingað upp og kalla og hrópa úr þessum ræðustóli eftir raunverulegum aðgerðum til þess að koma í veg fyrir, ef þess er nokkur kostur, ótímabær dauðsföll ungmenna á Íslandi,“ sagði Inga sem vísaði einnig í nýlegt viðtal við framkvæmdastjóra SÁÁ.
„Hvað segir hún? Tíu ungmenni hafa dáið frá áramótum, sem hafa í raun verið að nýta sér þjónustuna á Vogi, hafa fallið og hafa viljað koma aftur, þau eru á biðlista og hvaðeina annað sem er. Naloxone, þetta lyf sem er ekki ávanabindandi, það er ekki skaðlegra en panodil sem er selt hér úti í apóteki, gæti komið í veg fyrir stóran hluta af þeim ótímabæru dauðsföllum sem við erum að horfast í augu við í dag ef heilbrigðisyfirvöld myndu einungis leyfa það í lausasölu. Ég hvet heilbrigðisráðherra til dáða um leið og ég votta öllum þeim sem eru að ganga í gegnum þessar hörmungarsorgir mína dýpstu samúð.“