Nú styttist í að réttarhöld hefjist í einkamáli sem pistlahöfundurinn E Jean Carroll hefur höfðað gegn fyrrverandi Bandaríkjaforseta, Donald Trump, vegna meints kynferðisbrots sem á að hafa átt sér stað fyrir tæpum þremur áratugum.
Um er að ræða einkamál, en Carroll heldur því fram að Trump hafi ráðist á hana í verslun á Manhattan. Trump hefur þó neitað sök og segir að pistlahöfundurinn sé að sækjast eftir athygli á hans kostnað.
Þó ekki sé um sakamál að ræða gæti málið haft töluverðar afleiðingar í för með sér. Ef Carroll hefur betur þá verður þetta í fyrsta sinn sem Trump verður að lögum talinn sekur um kynferðisbrot.
Í máli sínu segir Carroll að hún hafi rekist á Trump þegar hún var úti að versla. Hafi Trump beðið hana um ráðleggingar varðandi hvaða undirföt hann ætti að kaupa handa annarri konu. Hann hafi svo beðið Carrill, í gríni, að máta undirfötin fyrir sig. Þegar þau hafi verið komin í mátunarklefann hafi Trump ráðist á hana, þrýst henni upp að vegg og brotið á henni. Carroll segist hafa náð að ýta Trump af sér eftir töluverð átök. Hún hafi ekki leitað til lögreglu því hún hafi verið í áfalli og hafi ekki viljað líta á sjálfa sig sem þolanda nauðgunar.
Tvær vinkonur Carroll vitna að hún hafi greint þeim frá þessu broti rétt eftir að það átti sér stað, er reiknað með að þær muni bera vitni fyrir dómi.
Lögmenn Trump reyndu í gær að fá dómara til að úrskurða að kviðdómur mætti ekki heyra af öðru tilviki þar sem Trump hefur verið sakaður um nauðgun. Það mál varðar blaðakonu People, Natashiu Stoynoff sem segir að Trump hafi brotið gegn sér þegar hún tók viðtal við hann vegna greinar sem hún var að rita um eins árs brúðkaupsafmæli hans. Hún hafi í miðju viðtali afsakað sit til að skipta um föt og hafi Trump þá boðist til að sýna henni heimili sitt. Hann hafi svo vísað henni inn í herbergi og lokað hurðinni. Hann hafi svo þvingað hana upp að vegg og stungið tungu sinni upp í hana. Trump hefur einnig neitað sök í því máli.
Reiknað er með því að Stoynoff beri vitni í máli Carroll. Reyndu lögmenn Trump að bera því við að tilvik Stoynoff varðaði kynferðislega áreitni en ekki nauðgun og því gæti vitnisburður hennar ekki haft neina þýðingu þar sem samkvæmt reglum um sönnunargögn megi aðeins heimila sönnunarfærslu um fyrri kynferðisbrot ef tilteknum þröskuldi er náð. Þvingaður koss næði ekki þeim þröskuldi.
Dómari benti þó á að þessi krafa væri mjög seint fram komin. Það hefði verið ljóst mánuðum saman að Stoynoff gæti borið vitni og því hefði Trump misst af tækifærinu til að mótmæla.
Carroll steig fyrst fram með ásakanir sínar árið 2019. Trump hefur vísað þessu öllu á bug og sagt að Carroll sé ekki „hans týpa“.
Á síðastar ári var lögfest í New York heimild fyrir þolendur kynferðisbrota til að höfða mál á hendur gerendum sínum, þrátt fyrir að brotin séu fyrnd. Mun þessi heimild gilda í eitt ár. Carroll höfðaði mál sitt um leið og lögin tóku gildi.