Oliver Heiðarsson framherji FH er að öllum líkindum að ganga í raðir ÍBV. Samkvæmt öruggum heimildum 433.is hefur FH samþykkt kauptilboð ÍBV í sóknarmanninn.
Eyjamenn hafa undanfarna daga átt í viðræðum við FH og að lokum samþykkt FH tilboðið. Ekki náðist í Davíð Þór Viðarsson, yfirmann knattspyrnumála hjá FH við vinnslu fréttarinnar.
Til að félagaskiptin gangi í gegn þarf Oliver sjálfur að semja við Eyjamenn en ekki er talið að það verði flókið ferli. Oliver sem er fæddur árið 2001 skoraði fimm mörk í 31 leik fyrir FH í deild og bikar á síðustu leiktíð.
Oliver sem spilað getur sem kantmaður og framherji hefur komið við sögu í tveimur leikjum í Bestu deild karla í sumar, báðum sem varamaður. Hann var ónotaður varamaður þegar FH tapaði gegn Fylki í Árbænum í gær.
Oliver er sonur Heiðars Helgusonar sem átti afar farsælan feril sem atvinnu og landsliðsmaður í knattspyrnu. Oliver ólst upp á Englandi en lék með Þrótti áður en hann gekk í raðir FH fyrir tímabilið 2021.
ÍBV er með þrjú stig eftir þrjár umferðir í Bestu deildinni en liðið vann öflugan sigur á Íslandsmeisturum Breiðabliks á sunnudag.