Það kom kannski ekki ýkja mörgum á óvart að Joe Biden Bandaríkjaforseti skyldi tilkynna að hann hygðist sækjast eftir endurkjöri í embætti forseta eins og hann gerði í morgun.
Biden er orðinn áttatíu ára gamall og ef hann nær kjöri sem forseti verður hann orðinn 86 ára þegar öðru kjörtímabili hans lýkur árið 2028. Flest bendir til þess að Biden og Donald Trump muni berjast aftur um forsetastólinn eins og þeir gerðu árið 2020.
Daily Mail ræddi við nokkra lækna um væntanlegt framboð Bidens og segjast sumir hafa áhyggjur af háum aldri hans. Einn þeirra sem rætt var við var öldrunarlæknirinn Elena Mucci.
„Ef ég væri öldrunarlæknirinn hans myndi ég ekki ráðleggja honum að fara í aðra kosningabaráttu. Ég myndi mæla sterklega gegn því,“ segir Elena sem reiknar með að aðrir læknar myndu ráðleggja honum það sama.
Biden hafi þegar sýnt ýmis skýr merki öldrunar og það þjóni hvorki hagsmunum hans né bandarísku þjóðarinnar að hann verði forseti áfram næstu árin.
Fram kemur í frétt Daily Mail að Biden hafi sögu um gáttatif og óreglulegan hjartslátt. Þá hefur hann mælst með of hátt kólesteról í blóðinu, en það getur aukið líkur á sjúkdómum á borð við Alzheimer. Bendir Mucci á að eitt af einkennum gáttatifs sé þreyta og hún geti haft veruleg áhrif á hæfni hans til að sinna skyldum sínum.
Annar læknir, Stuart Fischer, bendir á að Biden taki blóðþynningarlyf og slík lyf hafi sínar aukaverkanir. Hætta sé á innvortis blæðingum eða alvarlegum meiðslum þess ef viðkomandi til dæmis dettur.
Rifjað er upp atvik fyrir tveimur mánuðum þegar Biden hrasaði á leið upp í forsetaflugvélina eftir þriggja daga reisu sína til Evrópu. Þá hrasaði hann í sömu tröppum í mars 2021 og í júní síðastliðnum datt hann af reiðhjóli við Rehoboth Beach í Delaware.
Ljóst er að Biden bíður erfitt verkefni að ná endurkjöri, en samkvæmt nýlegri könnun Associated Press vill aðeins um fjórðungur bandarísku þjóðarinnar að hann verði áfram forseti að þessu kjörtímabili loknu. Þá vilja aðeins 47% stuðningsmanna Demókrataflokksins að hann verði áfram.
Virðast kjósendur einmitt helst hafa áhyggjur af háum aldri hans, ef marka má umfjöllun Daily Mail.
„Hann yrði elsti forsetinn í sögu Bandaríkjanna og það er bara ómögulegt að vera upp á sitt besta á þessum aldri, alveg sama hvaða starf er um að ræða. Það er ekki hægt að leika á móður náttúru, en það má reyna,“ segir Fischer.