Það er ekki víst hvort Granit Xhaka verði með Arsenal í stórleiknum gegn Manchester City annað kvöld.
Arsenal heimsækir City í gríðarlega mikilvægum leik á milli tveggja efstu liða ensku úrvalsdeildarinnar.
Skytturnar eru með fimm stiga forskot en City á tvo leiki til góða. Arsenal hefur gert þrjú jafntefli í röð og þarf helst að vinna á morgun.
Xhaka var ekki með Arsenal í síðasta leik gegn Southampton og var hans sárt saknað.
„Hann æfir vonandi í dag en ég er enn ekki viss um hvort hann geti spilað,“ sagði Arteta á blaðamannafundi í dag.
William Saliba er fjarverandi áfram vegna bakmeiðsla en restin af hópnum er í lagi að sögn Arteta.
Leikur City og Arsenal hefst klukkan 19 annað kvöld.