Karlmaður lést þegar eldur kviknaði í skipinu Grímsnesi GK-555 í Njarðvíkurhöfn í nótt. Hinn látni var frá Póllandi, var á fimmtugasta aldursári og starfaði sem kokkur um borð. Þetta kemur fram í frétt Vísis sem birtist fyrir stundu.
Fram kemur að maðurinn láti eftir sig eiginkonu og börn í Póllandi. Að sögn skipstjórans, Sigvalda Hólmgrímssonar, hefur hinn látni starfað hér á landi í um tvo áratugi.
Alls voru sjö um borð í skipinu þegar eldur kviknaði um borð um tvöleytið í nótt. Halda átti út í róður í morgunsárið og því var áhöfnin sofandi um borð. Eldurinn dreifðist hratt um bátinn en fjórir í áhöfninni komust í land af sjálfsdáðum. Tveir voru fluttir slasaðir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem öðrum, sem brenndist illa, er haldið sofandi.
Reykkafarar Slökkviliðs Suðurnesja fóru um borð í skipið og náðu þriðja manninum út, meðvitundarlausum, en endurlífgunartilraunir báru ekki árangur.
Í viðtalinu segir Sigvaldi að ekki liggi fyrir hvernig eldurinn hafi kviknað um borð. Hann hafi heyrt mismunandi sögur frá þeim áhafnarmeðlimum sem eru til frásagnar.